Skoðun

Stóru tíðindin

Sverrir Björnsson skrifar
Frá sjónarhóli fólks sem vinnur að markaðs- og kynningarmálum, eins og ég hef gert í áratugi, eru tíðindi nýliðinnar kosningabaráttu að í fyrsta skipti var keyrð árásaauglýsingaherferð í opinberum fjölmiðlum, sjónvarpi og útvarpi.

Við höfum áður séð nafnlausar netsíður sem dreifa árásum og lygum á netinu en árásaherferð Samtaka skattgreiðenda er annars eðlis. Þessi aðferð, árásir samtaka sem eru sérstaklega stofnuð í áróðursskyni til hliðar við flokkana, eru stór hluti af kosningabaráttu í Bandaríkjunum en lítið beitt í Evrópu nema af hægri öfgaflokkum. Innleiðing þeirra á Íslandi eru nýjar fréttir og vekur spurningar.

Hvaðan koma peningarnir?

Herferð Samtaka skattgreiðenda hafði greinilega mikið fjármagn á bak við sig. Kostnaðurinn nam örugglega milljónum jafnvel tugum milljóna. Það er sjálfsagt að Samtökin birti kostnaðinn og hverjir greiddu hann. Krafan um að upplýsa um uppruna auglýsingafjár er talin besta leiðin til að stemma stigu við falsauglýsingum og falsfréttum, samanber fyrirhugaðar aðgerðir Evrópusambandsins, Facebook og Twitter. Í lögum er þess krafist að stjórnmálaflokkar upplýsi hvaðan fjármagn þeirra er upprunnið. Þarf ekki sama að gilda um samtök sem beita sér í kosningabaráttu? Alþingi og fjölmiðlanefnd ættu að taka á því.

Hvaða stjórnmálafl stendur að baki herferðinni?

Góð vísbending um það er að skoða að hverjum árásin beinist. Herferð Samtaka skattgreiðenda beindist gegn Vinstri grænum og miðja stjórnmálanna vill yfirleitt ekki beita svona harkalegum aðferðum. Helgi Hrafn, þingmaður Pírata, ályktaði í viðtali á Hringbraut að Sjálfstæðisflokkurinn stæði að baki þessu. Einnig má leita vísbendinga um hvaða stjórnmálaflokkur eða stuðningsmenn hvaða flokks hafa fjárhagslegt bolmagn í þetta? Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur það fjársterka bakhjarla að þeir geti kostað auka auglýsingaherferð – til hliðar við stóra opinbera auglýsingaherferð flokksins.

Þá er vert að athuga hvaða fólk stendur að baki Samtökum skattgreiðanda. Síðasta dag herferðarinnar var nafn formanns samtakanna birt í auglýsingu. Þá kom í ljós Sjálfstæðismaðurinn Skafti Harðarson.

Borga árásaauglýsingar sig?

Gefum Sjálfstæðismanninum Eyþóri Arnalds orðið í Silfrinu: „…reynslan hefur sýnt, t.d. í Bandaríkjunum að neikvæðar auglýsingar virka betur en jákvæðar…“

Fylgi VG féll mikið á meðan á herferðinni stóð. Virkaði níðherferðin svona vel? Munu þá ekki allir fara í þetta? Mun Skafti stofna Félag útsvarsgreiðenda fyrir sveitarstjórnarkosningarnar? Munum við sjá Félag fátæks fólks ráðast á Sjálfstæðisflokkinn með auglýsingum? Ég efast um að þau hafi efni á því og það er dapurlegt ef kosningabarátta framtíðar verður á jafn lágu plani og Samtök skattgreiðenda innleiddi núna.

Löglegt eða siðlaust?

Ég veit ekki hvort aðferðin sem slík er ólögleg, en það er allavega ólöglegt að birta ósannindi í auglýsingum. Sumar fullyrðingar í auglýsingum Samtaka skattgreiðenda birtu mjög bjagaðan sannleika.

Önnur spurning er hvort níð sé siðlaust? Dæmi nú hver fyrir sig.

Lýðræðislegt?

Jafnræði þegnanna er ein af undirstöðum lýðræðisríkja. Er lýðræðislegt að þeir sem hafa mikla fjármuni valti yfir aðra með árásaauglýsingum fyrir kosningar? Þeir sem hafa vald ættu að fara með það af tillitsemi gagnvart þeim sem ekki hafa það – líka þeir sem hafa auðvald.

 

Höfundur er hönnunarstjóri.




Skoðun

Sjá meira


×