Innlent

LungA hlaut heiðursviðurkenningu Erasmus+

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Heiðursverðlaunahafarnir Björt Sigfinnsdóttir, Aðalheiður Borgþórsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Ólafur Daði Eggertsson, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Önnu R. Möller, starfsmanni Erasmus+, við verðlaunaafhendinguna í dag.
Heiðursverðlaunahafarnir Björt Sigfinnsdóttir, Aðalheiður Borgþórsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Ólafur Daði Eggertsson, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Önnu R. Möller, starfsmanni Erasmus+, við verðlaunaafhendinguna í dag. Aðsent
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti í dag LungA – Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, heiðursviðurkenningu við hátíðlega athöfn á afmælishátíð Erasmus+ sem fram fór í Hörpu. Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri LungA, og Aðalheiður Borgþórsdóttir, einn af stofnendum LungA, tóku við viðurkenningunni. LungA hefur í meira en áratug nýtt sér fjölbreytta styrki í æskulýðshluta Erasmus+ til að byggja upp fjölþjóðlega listahátíð og LungA skólann, fyrsta lýðháskóla á Íslandi. Unnið er út frá hugmyndafræðinni um styrkingu sjálfsins í gegnum listir og skapandi vinnu.

Heiðursviðurkenningin er veitt í tilefni af 30 ára afmæli Erasmus+ í ár. Á afmælishátíðinni voru jafnframt veittar gæðaviðurkenningar Erasmus+ fyrir framúrskarandi Evrópuverkefni og hlutu sex verkefni, sem hafa verið styrkt af áætluninni, viðurkenningarnar í ár.

„Dómnefnd horfði til gæða, nýsköpunar, yfirfærslumöguleika, áhrifa, varanleika og verkefnastjórnunar við val á verðlaunaverkefnunum. Auk verðlaunaverkefnanna veitti mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, Evrópumerkið, viðurkenningu á sviði tungumálanáms og kennslu,“ segir í tilkynningu frá Rannís, Rannsóknarmiðstöð Íslands.

Aðrir sem hlutu viðurkenningu voru Listaháskóli Íslands, Skólaþjónusta Árborgar, Tækniskólinn - skóli atvinnulífsins, EVRIS, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ og Borgarbókasafnið. Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlun ESB, er stærsta mennta- og æskulýðsáætlun heims. Rannís hýsir Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og úthlutar árlega tæplega 1.000 milljónum króna til fjölbreyttra mennta- og æskulýðsverkefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×