Erlent

Fleiri ásakanir komnar fram á hendur Kevin Spacey

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Meint brot Spaceys spanna áratugalangt tímabil.
Meint brot Spaceys spanna áratugalangt tímabil. visir/getty

Leikarinn Kevin Spacey hefur á nýjan leik verið sakaður um kynferðislega áreitni í garð bæði karla og kvenna. BBC greinir frá.



Leikarinn var borinn þungum sökum um kynferðislega áreitni gagnvart leikaranum Anthony Rapp fyrir viku síðan en atvikið á að hafa átt sér árið 1986. Spacey var þá 26 ára gamall en Rapp aðeins fjórtán ára. Hann baðst afsökunar opinberlega í kjölfar ásakananna en tók þó fram að hann myndi ekki eftir atburðinum sjálfur.



Ásakanirnar sem komu fram í dag eru þónokkrar og spanna langt tímabil, eða frá miðbiki níunda áratugarins og allt til ársins 2016.



Heather Unruth, fyrrverandi sjónvarpsfréttamaður, lýsti því yfir á blaðamannafundi í Boston í dag að Spacey hefði áreitt son sinn kynferðislega á bar í Massachusetts í fyrra. Sonur hennar var þá átján ára gamall. Á Spacey að hafa borið áfengi í drenginn og káfað á kynfærum hans innan klæða.



Barþjónninn Kris Nixon steig einnig fram og vændi Spacey um að hafa gripið í klof sitt í gleðskap árið 2007. Skömmu eftir atvikið á Spacey að hafa dúkkað upp á barnum þar sem Nixon starfaði, tekið í buxnastreng hans og sagst vilja „bæta honum upp það sem gerðist.“



Fleiri menn hafa sömu sögu að segja af Spacey, meðal annars kvikmyndagerðarmaður sem hefur ekki komið fram undir nafni. Segir hann Spacey hafa áreitt sig árið 1995 en voru þeir þá báðir við tökur á kvikmyndinni Albino Allgator. Kvikmyndagerðarmaðurinn var aðeins 22 ára gamall á þeim tíma og segir hann Spacey hafa misnotað sér æsku hans og stöðu sem ungliða í teyminu.



Þá steig Kate Edwards, leiklistarkennari í Lundúnum, fram og ásakaði Spacey um að hafa lokkað sig heim til sín og gert sig líklegan til þess að hafa við hana samfarir. Þegar hún veik sér undan brást Spacey illa við og lokaði í kjölfarið á öll samskipti við hana.  


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×