Enski boltinn

Agüero stefnir heim til Argentínu eftir tvö ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sergio Aguero er markahæsti leikmaður Manchester City.
Sergio Aguero er markahæsti leikmaður Manchester City. vísir/getty
Sergio Agüero, framherji Manchester City, stefnir að því að ganga aftur í raðir uppeldisfélagsins Indipendiente í Argentínu þegar að samningur hans við City rennur út sumarið 2019.

Argentínumaðurinn kom til Manchester City frá Atlético Madrid árið 2011 en hann hóf meistaraflokksferilinn með Indipendiente í heimaborg sinni Bureno Airies árið 2003.

Agüero er orðinn goðsögn í lifanda lífi hjá City en á þessum sex árum í Manchester hefur honum tekist að vinna fimm stóra titla og er orðinn markahæsti leikmaður í sögu félagsins.

Það er klásúla í samningi Argentínumannsins sem gerir honum kleift að framlengja við City um eitt ár sumarið 2019 þegar hann verður orðinn 31 árs gamall en hann dreymir um að komast heim.

„Ég las einhvers staðar að AC Milan og Real Madrid vilja fá mig. Þau eru að reyna að eyðileggja draum Indipendiente. Hugmyndin var alltaf að fara heim árið 2019 þegar samningurinn minn við City rennur út,“ segir Agüero en Sky Sports greinir frá.

„Ég get verið einu ári lengur en stefnan er að fara heim. Mér gengur vel núna og vonandi getum við unnið deildina en það verður ekki auðvelt,“ segir Sergio Agüero.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×