Fótbolti

Birkir þarf ekki að fara í aðgerð og vill ekki spila á Norðurlöndum fram að HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Már Sævarsson í leik með Íslandi
Birkir Már Sævarsson í leik með Íslandi vísir/getty

Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, þarf ekki að fara í aðgerð vegna viðbeinsbrotsins sem hann varð fyrir í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar í síðustu viku.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en þar segir Birkir að beinið ætti að gróa sjálfkrafa á sex vikum. Ekki brotnaði úr beininu sem hefði skapað vandamál, að sögn Birkis.

Hann segir það lán í óláni að meiðast á þessum tímapunkti þar sem tímabilinu er lokið í Svíþjóð en hann þarf nú að hugsa næsta skref til að halda sér í standi fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta næsta sumar.

Birkir segir ekkert að gerast í sínum málum en hann vill ekki spila á Norðurlöndum fram að HM þar sem tímabilið þar hefst ekki fyrr en í mars. Hann vill byrja að spila aftur strax í janúar og vera að fram í maí áður en HM hefst.

„Hjá mér er forgangsatriði að spila í deild sem er í gangi frá og með janúar. Deildirnar á Norðurlöndunum eru byggðar upp á svipaðan hátt og sú íslenska og ég sé því ekki mikinn mun á því að spila heima eða á Norðurlöndunum hvað það varðar. Þá myndi ég spila í einn eða tvo mánuði fram að HM,“ segir Birkir Már.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.