Bíó og sjónvarp

Ridley Scott lætur Kevin Spacey fjúka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kevin Spacey hefur löngum verið einn dáðasti leikari Hollywood en undanfarið hafa fjölmargir karlmenn stígið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni leikarans.
Kevin Spacey hefur löngum verið einn dáðasti leikari Hollywood en undanfarið hafa fjölmargir karlmenn stígið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni leikarans. vísir/getty

Breski kvikmyndaleikstjórinn Ridley Scott ætlar að skipta bandaríska leikaranum Kevin Spacey út fyrir annan leikara í nýjustu kvikmynd sinni, All the Money in the World, en aðeins er rúmur mánuður í að myndin verði frumsýnd.

Christopher Plummer mun taka við hlutverki Spacey í myndinni, sem er stærsta aukahlutverk myndarinnar, en ákvörðun Scott um að láta Spacey fjúka kemur í kjölfar fjölda ásakana sem komið hafa fram á hendur leikaranum um kynferðislega áreitni.

All the Money in the World byggir á sannri sögu um mannrán sem átti sér stað árið 1973. 16 ára afasyni Paul Getty var þá rænt, J. Paul Getty III, en afinn neitaði að mæta kröfum mannræningjans.

Spacey átti að fara með hlutverk Getty eldri og ákvörðunin um að taka upp svo stórt hlutverk að nýju, sérstaklega þegar svo skammur tími er til frumsýningar, er fordæmalaus að því er segir í frétt Vox um málið. Þó það gerist að leikara sé skipt út fyrir annan eftir að tökum á kvikmynd lýkur er það afar sjaldgæft og er þá helst gert þegar leikari fellur skyndilega frá.

Það að Spacey sé alfarið klipptur út úr myndinni og honum skipt út fyrir annan leikara þykir sýna hversu alvarlega Hollywood lítur þær ásakanir sem komnar eru fram á hendur leikaranum, eða að minnsta kosti hversu örvæntingarfullir margir eru í að fjarlægja sig manni sem hefur hegðað sér á jafn ósæmilegan hátt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×