Viðskipti innlent

Auðmenn sagðir skoða leiðir til að komast undan greiðslu auðlegðarskatts

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eina löglega leiðin til þess að komast undan því að greiða auðlegðarskatt hér á landi er að flytja af landi brott og þarf flutningurinn að vera raunverulegur en ekki aðeins á pappírunum.
Eina löglega leiðin til þess að komast undan því að greiða auðlegðarskatt hér á landi er að flytja af landi brott og þarf flutningurinn að vera raunverulegur en ekki aðeins á pappírunum. Vísir/Valli
Fólk sem á miklar eignir hér á landi er nú sagt skoða leiðir til þess að komast undan greiðslu auðlegðarskatts en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, talaði um það í kosningabaráttunni í liðnum mánuði að koma á því sem kallaður hefur verið „hóflegur auðlindaskattur“ upp á 1,5 prósent.

Viðskiptablaðið kveðst hafa heimildir fyrir hugmyndum auðmanna um að flytja eignir sínar úr landi í blaðinu í dag. Segir þar að fólk hafi fundað með ráðgjöfum meðal annars í aðdraganda kosninganna og hleypur fjöldi þeirra sem sótt hafa sér ráðgjöf vegna þess á tugum manna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Spurningin er þó hvort að auðlegarskatti verði yfir höfuð komið á en eins og greint hefur verið frá er nú til skoðunar í óformlegum þreifingum flokkanna varðandi stjórnarmyndun að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn vinni saman í ríkisstjórn. Alkunna er að Sjálfstæðismenn hafna öllum hugmyndum um auðlegarskatt.

Að því sögðu er eina löglega leiðin til þess að komast undan því að greiða auðlegðarskatt hér á landi er að flytja af landi brott og þarf flutningurinn að vera raunverulegur en ekki aðeins á pappírunum, eins og það er orðað í Viðskiptablaðinu.

Þannig þarf viðkomandi að flytja lögheimili sitt, skattalega heimilisfesti og hugsanlega allar eignir úr landi til að komast hjá greiðslu skattsins en slíkt gæti reynst snúið fyrir einhverja, ekki síst þá sem eiga miklar eignir en eru einnig í rekstri hér á landi.

Þeir aðilar gætu þannig ekki eins auðveldlega og ef til aðrir auðmenn farið alveg af landi brott með allt sitt.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×