Bakþankar

Fjárfestingakostir

Það er merkilegt hvernig mannleg málefni eru oft hliðsett á meðan malbik og steypa eru algildar einingar í umræðu um samfélagslega innviði og fjárfestingu í þeim.

Við höfum búið til og fjármagnað deiliskipulög, umhverfismöt og hagrænar greiningar fyrir öll landsins mislægu gatnamót og hjólabrautir, en áætlanir um úrræði til þess að koma í veg fyrir að fólk með barnagirnd brjóti af sér er því miður ekki hægt að fjármagna.

Af hverju leggjum við ekki sama kraft í að skipuleggja farsæld þegnanna og aðgengi þeirra að stofnbrautum? Af hverju eru forvarnir gegn ofbeldi alltaf tímabundin átaksverkefni á meðan það er lögbundið verkefni stjórnsýslustofnunar að hafa eftirlit með umferðaröryggi í hönnun og notkun vega? Eiga forvarnir og öryggi bara að vera hluti af mannvirkjagerð?

Það eru meiriháttar fjárfestingatækifæri fyrir íslenskt samfélag fólgin í því að styðja við börn sem þurfa aðstoð við nám, félagsfærni eða vegna heimilisaðstæðna. Það eru ónýttar auðlindir í hugmyndum þeirra sem passa ekki inn í stöðluð mót samfélagsins. Þær er hægt að virkja með stuðningi og leiðbeiningum. Það eru nefnilega ekki bara persónulegir hagsmunir fólgnir í því að tryggja fjármagn og fagmennsku í stofnanir eins og barnavernd og menntakerfi. Það eru verulegir samfélagslegir hagsmunir til lengri tíma sem gætu minnkað útgjöld til þátta eins og réttar- og refsivörslukerfisins þegar til lengri tíma er litið.

Áætlanir duga ekki einar. Það þarf líka peninga. Hugsanlega mætti nálgast útgjöld til velferðar- og menntamála sem fjárfestingu, en ekki kostnað. Væri hægt að ráðast í tímabundið átak til þess?






×