Innlent

Marshall-húsið og Bláa Lónið hljóta Hönnunarverðlaun Íslands

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í fjórða sinn í kvöld við hátíðlega athöfn í IÐNÓ.
Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í fjórða sinn í kvöld við hátíðlega athöfn í IÐNÓ. Vísir/GVA

Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í fjórða sinn í kvöld við hátíðlega athöfn í IÐNÓ. Veitt voru verðlaun í tveimur flokkum, Hönnunarverðlaun Íslands og Besta fjárfesting í hönnun 2017. Að þessu sinni voru Marshall-húsið og Bláa Lónið verðlaunuð

„Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt hönnunarsamfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt að vekja athygli og dýpka skilning á gildi góðrar hönnunar,“ segir í tilkynningu um verðlaunin. Hönnunarverðlaun Íslands 2017 eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, veitt af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2017 eru Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason arkitektar Kurt og Pí, fyrir Marshall-húsið. Þeir leiddu hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta. Marshall-húsið er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling og Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og Marshall Restaurant + Bar. 

Umsögn dómnefndar um Marshall -húsið:

„Verkið kristallar vel heppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Arkitektarnir hafa þróað verkefnið frá hugmyndavinnu til útfærslu og leitt saman breiðan hóp aðila til að skapa heilsteypt verk. Í verkinu er vel unnið með sögu byggingarinnar og samhengi staðar og til verður nýr áfangastaður fyrir samtímalist í Reykjavík á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni. Marshall húsið er gott  dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verður til nýsköpun í borgarumhverfinu.“

Bláa Lónið hlaut viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2017. Viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi.

Umsögn dómnefndar um Bláa Lónið:

„Hönnun er órjúfanlegur hluti af heildarmynd fyrirtækisins sem vinnur náið með framúrskarandi arkitektum og hönnuðum þvert á greinar. Þessi framsýni á svo sannarlega þátt í því að fyrirtækið hefur notið þeirrar velgengni sem raun ber vitni og átt sinn þátt í vinsældum Íslands sem áfangastaðar. Bláa Lónið er eitt besta dæmið á Íslandi um það að fjárfesting í góðri hönnun margborgar sig.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.