Erlent

Kevin Spacey kemur út úr skápnum í kjölfar ásakana um áreitni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kevin Spacey segist ekki muna eftir atvikinu en biðst innilegrar afsökunar.
Kevin Spacey segist ekki muna eftir atvikinu en biðst innilegrar afsökunar. Vísir/Getty

Í kjölfar ásakana um að bandaríski stórleikarinn Kevin Spacey hafi áreitt barnastjörnu ákvað hann að koma út úr skápnum á Twitter-síðu sinni í nótt.

Anthony Rapp, sem þá var fjórtán ára gamall, sagði í samtali við fjölmiðla ytra að Spacey hafi boðið sér í teiti og að hann hafi virst vera drukkinn þegar áreitið átti sér stað.

Spacey, sem þá var 26 ára, segist í sannleika sagt ekki muna eftir þessu atviki. Ef það hafi átt sér stað hefur það verið fyrir um 30 árum síðan. „En ef ég hagaði mér eins og hann segir þá skulda ég honum innilega afsökunarbeini fyrir það sem hefur verið einstaklega ósmekkleg drukkin hegðun.“

Rapp segist hafa þorað að segja sögu sína eftir að ásakanir á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein komu fram. Tugir kvenna hafa stígið fram og sakað hann um nauðgun, kynferðislega áreitni og aðra óæskilega hegðun í þeirra garð.

Í viðtali við BuzzFeed segir Anthony Rapp, sem er hvað þekktastur fyrir leik sinni í Star Trek: Discovery, Spacey hafa lyft sér upp og borið hann að rúminu í íbúð sinni. „Hann tók mig upp eins og brúðgumi tekur upp brúði sína og heldur á henni yfir þröskuldinn. Ég reyndi ekki að streitast á móti í upphafi því ég hugsaði: „Hvað er í gangi?“ Síðan leggst hann ofan á mig,“ segir Rapp.

„Hann var að reyna að tæla mig. Ég áttaði mig á því að hann var að reyna að fá mig til að gera eitthvað kynferðislegt með sér.“

Kevin Spacey brást við þessum fregnum sínum á Twitter-síðu sinni þar sem hann biðst afsökunar á því að Rapp hafi þurft að bera þessar tilfinningar með sér til dagsins í dag.

Í tísti sínu nefnir hann einnig „sögur“ um einkalíf sitt og segist hafa verið í samböndum með konum jafnt sem körlum. Hann vilji í dag lifa lífi sínu sem samkynhneigður maður.

„Mig langar að vinna úr þessu á heiðarlegan og opinn máta og það byrjar á því að ég taki atferli mitt til skoðunar.“ 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×