Erlent

Manafort ákærður fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum og peningaþvætti

Kjartan Kjartansson skrifar
Manafort hefur lengi starfað sem málafylgjumaður fyrir erlend ríki í Washington-borg. Hann er nú ákærður fyrir að hafa ekki skráð sig sem slíkur og að hafa þvegið fé.
Manafort hefur lengi starfað sem málafylgjumaður fyrir erlend ríki í Washington-borg. Hann er nú ákærður fyrir að hafa ekki skráð sig sem slíkur og að hafa þvegið fé. Vísir/AFP
Ákæran gegn Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta, og viðskiptafélags hans varðar samsæri gegn Bandaríkjunum, um peningaþvætti og að gefa rangar yfirlýsingar til yfirvalda.

Samkvæmt frétt Washington Post eru ákærurnar gegn Manfort og Rick Gates, viðskiptafélaga hans til margra ára, sem gerðar voru opinberar í morgun í tólf liðum. Þær eru þær fyrstu sem koma úr rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra og hugsanlegu samráði þeirra við framboð Trump.

New York Times greinir frá því að Manafort, sem gaf sig fram við yfirvöld í morgun, sé sakaður um að þvegið meira en átján milljónir dollara til kaupa fasteignir og þjónustu.

„Manafort notaði falinn aflandsauð til þess að njóta eyðslusams lífsstíls í Bandaríkjunum án þess að borga skatta af þeim tekjum,“ segir í ákærunni.

Gates er sakaður um að flytja þrjár milljónir dollara af aflandsreikningum en saman eru þeir ákærðir fyrir að gefa falska skýrslu.

Koma fyrir dómara síðar í dag

CNN segir að félagarnir séu jafnframt ákærðir fyrir að skrá sig ekki sem málafylgjumenn erlendra aðila og að gefa ekki upp eignir í erlendum fjármálastofnunum.

Ekkert kemur fram í ákærunni um forsetaframboð Trump. Manafort var kosningastjóri Trump til ágúst 2016. Hann hætti eftir að hann var sakaður um að hafa þegið milljónir dollara frá fyrrverandi forseta Úkraínu sem er hliðhollur Rússum.

CNN segir að Manafort og Gates komi fyrir dómara síðdegis að íslenskum tíma. Blaðafulltrúi Hvíta hússins verður með blaðamannafund í beinni útsendingu skömmu áður, kl. 17 að íslenskum tíma. Hvíta húsið hefur enn ekki tjáð sig beint um vendingarnar í morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×