Erlent

Trump sagður rjúkandi reiður eftir ákærurnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump lét ekki á neinu bera þegar hann tók á móti börnum í Hvíta húsinu í lok viðburðaríks dags í rannsókninni á mögulegu samráði framboðs hans við Rússa.
Trump lét ekki á neinu bera þegar hann tók á móti börnum í Hvíta húsinu í lok viðburðaríks dags í rannsókninni á mögulegu samráði framboðs hans við Rússa. Vísir/AFP
Aðstoðarmenn Donalds Trump eru sagðir hafa lagt fast að Bandaríkjaforseta að láta það vera að ráðast á Robert Mueller, sérstakan rannsakanda, eftir að fyrstu ákærurnar í Rússarannsókn hans voru gerðar opinberar í gær. Trump er sagður hafa verið rjúkandi reiður yfir ákærunum.

Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump, og Rick Gates, viðskiptafélagi hans til margra ára, voru ákærðir í gær fyrir samsæri, peningaþvætti, skattaundanskot og að hafa ekki skráð sig sem málsvara erlendra aðila eins og þeim var skylt að gera.

Þá játaði George Papadopoulos, ráðgjafi í utanríkismálum í byrjun framboðs Trump, að hafa logið að alríkislögreglunni FBI um samskipti sín við aðila tengda rússneskum stjórnvöldum.

Mueller hefur stjórnað rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra frá því í maí en rannsóknin hefur staðið yfir frá því í fyrra. Bandaríska leyniþjónustan hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar.

Bæði Washington Post og CNN hafa birt frásagnir af andrúmsloftinu í Hvíta húsinu í gær þegar fréttirnar af ákærunum bárust. Þær byggjast á viðtölum við fjölda embættismanna, vina Trump og bandamanna hans utan Hvíta hússins.

Var hissa á fréttunum um Papadopoulous

Trump er sagður hafa haldið sig í íbúðarhluta Hvíta hússins og fylgst með fréttum af ákærunum á stórum sjónvörpum sem hefur verið komið fyrir þar stóran hluta gærdagsins. Aðeins örfáir ráðgjafar hans hafi verið honum innan handar, þar á meðal lögmenn hans, að sögn CNN.

CNN hafði greint frá því á föstudag að von væri á handtökum í gær. Ekki hafði verið greint frá því hver yrði ákærður eða fyrir hvað. Washington Post segir að starfsliði Hvíta hússins hafi verið létt þegar í ljós að Manafort væri fyrsta stóra fórnarlamb Mueller.

Paul Manafort var kosningastjóri Trump þar til í ágúst í fyrra. Þá komu fram ásakanir um óeðlilegar greiðslur til hans frá Úkraínu.Vísir/AFP
Í fyrstu hafi Trump fundist  fréttirnar af ákærunum réttlæta sig því að þær fjölluðu um mál sem áttu sér stað áður en Manafort og Gates störfuðu fyrir framboðið. Forsetinn á þó að hafa kvartað undan því að fjölmiðlar gerðu of mikið úr hlutverki Manafort í kosningabaráttu hans.

Fréttirnar af Papadopoulos eru aftur á móti sagðar hafa komið Trump á óvart

„Í alvörunni? Þessi gaur?“ segir háttsettur starfsmaður Hvíta hússins að Trump hafi sagt um Papadopoulos.

„Allir eru að fara yfir um“

Innanhússátök eru sögð hafa átt sér stað um hvort að Trump ætti að ráðast að trúverðugleika Mueller. Lögmenn Trump hafi ráðið honum eindregið frá því og hvatt hann til að vinna með rannsakendum Mueller jafnvel þó að aðrir ráðgjafar, þar á meðal Stephen Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafi Trump, hafi hvatt forsetann til að svara fyrir sig af hörku.

„Að krefjast brottrekstrar Mueller myndi grafa undan málflutningi Hvíta hússins,“ hefur CNN eftir ónafngreindum heimildarmanni úr stjórn Trump.

Robert Mueller opinberaði þrjár ákærur í Rússarannsókn sinni sem skóku Wahington-borg í gær.Vísir/AFP
Reiði forsetans er sögð hafa verið augljós þeim sem áttu samskipti við hann í Hvíta húsinu í gær. Andrúmsloftið þar hafi einkennst af þreytu og ótta við óvissuna. Sumir starfsmenn hafi rætt sín á milli um hvert rannsókn Mueller gæti leitt næst.

„Hringurinn er að þrengjast. Allir eru að fara yfir um,“ hefur Washington Post eftir háttsettum repúblikana sem var í samskiptum við æðstu stjórnendur Hvíta hússins í gær.



Eykur líkurnar á inngripi í rannsóknina

Þrátt fyrir að reiðin kraumaði undir lét Trump ekkert uppi þegar hann tók á móti börnum í tilefni hrekkjavökuhátíðarinnar í Hvíta húsinu og gaf þeim sælgætispoka með eiginkonu sinni, Melaníu. Hunsaði Trump tilraunir blaðamanna til að spyrja hann út í ákærurnar.

CNN segir að bandamenn forsetans hafi rætt um það í einrúmi að vendingar gærdagsins gerðu það líklegra að Trump reyndi á endanum að leggja stein í götu rannsóknarinnar, jafnvel að reka Mueller.

Hvað sem síðar verður takmarkaði Trump sig við tvö tíst í gær þar sem hann lýsti ergelsi sínu yfir að Hillary Clinton og Demókrataflokkurinn væru ekki skotmörk rannsóknarinnar.

„Það er EKKERT SAMRÁÐ!“ tísti Trump.


Tengdar fréttir

Manafort segist saklaus af öllum ákærunum

Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump, og viðskiptafélagi hans lýstu sig saklausa af ákærum fyrir fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum, peningaþvætti og skattsvik, er þeir komu fyrr rétt í Washingon í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×