Viðskipti innlent

Vincent Tchenguiz nær sátt við Kaupþing

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Breski kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz.
Breski kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz. Vísir/Daníel
Breski viðskiptajöfurinn Vincent Tchenguiz hefur samið um sátt við þrotabú Kaupþings, tæpum áratug eftir að deila hans við bankann hófst. Kaupþing hefur fallist á að greiða fjárfestingarsjóð hans, Tchenguiz Family Trust, ótilgreinda upphæð en Tchenguiz hafði stefnt bankanna og krafist 2,2 milljarða punda frá bankanum. Sú upphæð nemur um 308 milljörðum króna.

„Ég er feginn að þessu máli sé nú lokið. Ég er spenntur fyrir framtíðinni og get nú einbeitt mér að viðskiptum mínum,“ segir Tchenguiz.

Deila Tchenguiz við Kaupþing hófst í kjölfar bankahrunsins, taldi hann að bankinn skuldaði sér 1,6 milljarða punda þegar bankinn féll.

Í september árið 2011 var talið að sátt hefði náðst í málinu þegar fjárfestingarsjóðurinn samþykkti að falla frá kröfum sínum á þrotabúið. Það samkomulag var trúnaðarmál og mátti því ekki ræða það opinberlega.

Í nóvember 2014 stefndi Tchenguiz Kaupþingi, lögmönnum hans og tveimur eigendum endurskoðendafyrirtækisins Grant Thornton. Hann taldi sig hafa orðið fyrir tjóni þegar efnahagsbrotadeild bresku lögrelgunnar (SFO) rannsakaði lánveitingar hans og bróður hans, sem var einn stærsti skuldari Kaupþings þegar bankinn féll og hélt hann því fram að þeir stefndu hefðu komið því í kring að SFO rannsakaði lánveitingar hans.

Að lokum féll SFO frá rannsókninni og baðst breska lögreglan afsökunar og borgaði Tchenguiz 3 milljónir punda í skaðabætur.

Í frétt Telegraph segir að Robert, bróðir Vincents, muni halda áfram með sitt mál en hann krefur bankann um einn milljarð punda.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×