Fótbolti

Markmannsþjálfarinn einnig sakaður um kynþáttafordóma í garð Aluko

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eni Aluko í leik með enska landsliðinu.
Eni Aluko í leik með enska landsliðinu. vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið ætlar að rannsaka meinta kynþáttafordóma markmannsþjálfara enska landsliðsins í garð Eni Aluko.

Fyrr í þessari viku bað enska knattspyrnusambandið Aluko afsökunar á kynþáttafordómum Marks Sampson, fyrrverandi landsliðsþjálfara Englands, í hennar garð.

Aluko hefur einnig sakað Lee Kendall, markmannsþjálfara enska landsliðsins síðan 2014, um kynþáttafordóma. Að sögn Alukos notaði Kendall karabískan hreim þegar hann talaði við hana. Aluko er hins vegar af afrískum ættum.

Aluko talaði einnig um að Kendall hafi sagt hana vera lata og látið miður falleg ummæli um hana falla.

Aluko sagði að ummæli Kendalls væru óviðeigandi, ófagleg og óréttmæt og að hún hafi verið tekin fyrir.

Enska knattspyrnusambandið hefur sem áður sagði hafið rannsókn á meintum kynþáttafordómum Kendalls. Enska knattspyrnusambandið var harðlega gagnrýnt hvernig það tók á máli Sampsons og traustið til þess er í frostmarki þessa stundina.

Hin þrítuga Aluko skoraði á sínum tíma 33 mörk í 102 landsleikjum fyrir England. Hún hefur leikið með Chelsea frá 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×