Handbolti

Viktor Gísli æfði með ofurstjörnum PSG: „Þetta var draumi líkast“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson þurfti að glíma við skot frá Nikola Karabatic og Mikkel Hansen.
Viktor Gísli Hallgrímsson þurfti að glíma við skot frá Nikola Karabatic og Mikkel Hansen. vísir/getty/ernir
Viktor Gísli Hallgrímsson, 17 ára gamall unglingalandsliðsmaður Fram í Olís-deild karla í handbolta, æfði með Paris Saint-Germain í vikunni en Frakklandsmeistararnir eru með eitt allra besta lið heims.

Parísarliðið bauð Viktori í heimsókn en hann fór út á þriðjudaginn og kom aftur heim í gær. Hann gekkst undir læknisskoðun ytra og æfði svo einu sinni með ofurstjörnum PSG sem var eðlilega mikil upplifun fyrir þennan gríðarlega efnilega markvörð.

„Þetta var rosalegt, alveg draumi líkast,“ segir Viktor Gísli en hann þurfti þarna að glíma við skot frá heims- og Evrópumeisturum á borð við Uwe Gensheimer, Luc Abalo, Mikkel Hansen, Daniel Narcisse og Nikola Karabatic.

„Þessir menn eru náttúrlega rosalegir. Maður hélt stundum að maður væri að fara að verja eitthvað en þá fór boltinn bara í skeytin.“

Viktor Gísli átti varla orð til að lýsa aðstæðum hjá Frakklandsmeisturunum sem eru nú komnir með íslenska markvörðinn á radarinn og hver veit nema hann verði í framtíðinni fenginn til að leysa af Thierry Omeyer í markinu hjá PSG.

„Þetta kveikir auðvitað enn frekari neista í manni en nú fer maður bara aftur að hugsa um Fram og næsta deildarleik á sunnudaginn. Þetta var gaman en nú er það bara deildin hérna heima,“ segir Viktor Gísli Hallgrímsson.

Fram mætir nýliðum Víkings í Víkinni klukkan 17.00 á sunnudaginn þegar að sjöunda umferðin verður spiluð í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×