Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Selfoss 23-24 | Frábær endurkoma Selfyssinga

Einar Sigurvinsson skrifar
Elvar Örn Jónsson reynir skot að marki Hauka.
Elvar Örn Jónsson reynir skot að marki Hauka. vísir/stefán
Selfoss sigraði Hauka, 23-24, í Hafnarfirðinum í kvöld. Með sigrinum jöfnuðu Selfyssingar Hauka að stigum og eru því bæði lið með 10 stig að sjö umferðum lokum.

Fyrstu mínútur leiksins var jafnræði með liðunum og var staðan 3-3 eftir 10 mínútna leik. Þá skoruðu Haukamenn næstu fjögur mörk leiksins og tóku yfir leikinn. Björgvin lokaði markinu og var það ekki fyrr en á 21. mínútu sem Selfyssingar náðu að skora sitt fjórða mark og minnka muninn í 7-4. Undir lok fyrri hálfleiksins náðu Selfyssingar aðeins að bæta sóknarleik sinn og var staðan í hálfleik 13-8 fyrir Hauka. Sanngjarnt fimm marka forskot hjá heimönnum.

Allt annað var að sjá leik Selfyssinga í síðari hálfleik. Þeim tókst að loka á sóknir Haukamanna og kláruðu nær allar sínar sóknir með marki. Á 41. mínútu jafnaði Elvar Örn fyrir Selfyssinga, 16-16. Selfyssingar búnir að spila 11 mínútur í síðari hálfleik og skora jafn mörg mörk og þeir gerðu allan fyrri hálfleikinn.

Síðustu 20 mínúturnar var leikurinn hnífjafn og liðin skiptust á að vera yfir með einu marki. Haukar fengu tækifæri til að jafna í síðustu sókn leiksins en skot Halldórs Inga endaði í stönginni. Lokatölur 23-24, eins marks sigur Selfoss eftir ótrúlegan síðari hálfleik.

Af hverju vann Selfoss leikinn?

Enn og aftur nær Selfoss að sína karakter í síðari hálfleik. Þeir misstu aldrei trúna og var síðari hálfleikur þeirra frábær. Þeir voru að klára flestar sóknir og vörninni tókst að setja í lás. Auk þess fengu þeir loksins markvörslu í sinn leik en Sölvi Ólafsson átti fínan síðari hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel Þór Ingason átti virkilega fínan leik fyrir Hauka og var markahæsti maður vallarins með 9 mörk. Á eftir honum kom Elvar Örn Jónsson með 7 mörk.

Hvað gekk illa?

Markverðir beggja liða áttu slæma hálfleika. Björgvin Páll var frábær í marki Hauki í fyrri hálfleik með 10 varða bolta en gekk ekki jafn vel í síðari hálfleik og varði aðeins fjögur skot. Hinum megin á vellinum var lítið varið hjá markvörðum Selfyssinga í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik fann Sölvi taktinn og endaði með markvörslu í kringum 37 prósent.

Hvað gerist næst?

Næsti leikurinn liðanna verður eftir tvær vikur, sunnudaginn 5. nóvember. Haukar taka á móti nýliðum Gróttu og stjörnulið ÍBV mætir á Selfoss.

Gunnar: Við köstuðum þessu frá okkur

„Við vorum bara klaufar að vera ekki meira yfir í hálfleik, þetta var frábær fyrri hálfleikur. Vörnin var stórkostleg fyrstu 30 mínúturnar og við spiluðum frábærlega, sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka, eftir eins marks tap liðsins gegn Selfyssingum í kvöld.

Haukar voru töluvert betra liðið á vellinum í fyrri hálfleik en allt annað var að liðið í þeim síðari. Það tók Selfyssinga 11 mínútur að jafna leikinn eftir að hafa farið fimm mörkum undir inn í hálfleikinn.

„Í seinni hálfleik er þetta svo bara eins og svart og hvítt, miðjublokkin sem var búin að vera frábær í fyrri hálfleik bara hrinur og allir með. Það stendur ekki steinn við steini í vörninni og við bara náum ekki að klukka þá varnarlega. Við eigum bara ekki séns í þá varnarlega í seinni hálfleik og þeir ganga á lagið. Við fáum á okkur 16 mörk í einum hálfleik sem er allt of mikið fyrir okkur.“

„Ég er ekki bara ósáttur með það hvernig við fórum niður á hælana, við vorum líka að missa hausinn í klaufalegum brotum og vorum mikið einum færri. Við köstuðum þessu frá okkur.“

Aðspurður hvort hann hafi einhverjar skýringar á leik liðsins í síðari hálfleik sagði Gunnar að hann þyrfti að skoða leikinn betur.

„Við þurfum bara að leggjast yfir þetta. Auðvitað var skelfilegt að sjá hvernig sömu mennirnir og voru frábærir í fyrri hálfleik detta niður í seinni hálfleik. Að sama skapi var færanýtingin hræðileg, sérstaklega af línunni. Þegar við vorum eiga slæman kafla varnarlega vantaði okkur að klára færin líka til að halda þeim í skefjum. Við fengum nóg af færum í síðari hálfleik til að skora meira en 10 mörk, en við nýttum þau ekki.

Undir lok leiksins voru nokkrir dómar að leggjast illa í leikmenn Hauka, Gunnar vildi þó ekki meina að þetta hafi verið illa dæmdur leikur.

„Nei, ég er mest svekktur út í okkur sjálfa. Þetta var kannski eitthvað eitt og eitt atriði en ég er mest svekktur yfir því hvernig við duttum niður í seinni hálfleik. Allur minn pirringur var út í okkar drengi, hvernig við duttum niður og misstum hausinn. Þetta er ekki boðlegt.“

„Við þurfum bara að læra af þessu. Á móti jafn góðu liði og Selfoss, ef við gefum þeim blóðbragð á tennurnar þá taka þeir það, allan daginn,“ sagði svekktur Gunnar að lokum.

Patrekur: Menn gáfust aldrei upp

„Bara frábært, menn gáfust aldrei upp og það var það sem við ræddum um í hálfleik, sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss í leikslok.

„Í byrjun leiks vorum við að fá fín færi, Bjöggi varði bara allt. Þá kom pínu vonleysi upp í sóknarleikinn, sem hefur yfirleitt verið mjög góður hjá okkur. Ég er ánægður með það samt að við héldum áfram og förum inn í hálfleikinn með bara fimm mörk.“

„Við ræddum um það að halda áfram, svolítið að sleppa sér og fara aftur í þetta sem við kunnum og gerum svo vel og það gekk eftir í seinni hálfleik. Svo varð vörnin líka sterkari og Sölvi varði nokkra mikilvæga bolta.“

Selfyssingar voru að elta Haukamenn allan fyrri hálfleikinn og voru sanngjarnt fimm mörkum undir. Patrekur gaf þó lítið fyrir að frammistaðan í fyrri hálfleik hafi ekki verið góð.

„Ég er búinn að vera í þessu í mörg ár, ég spilaði sjálfur og er búinn að vera að þjálfa mjög lengi. Stundum skorar maður og stundum klikkar maður en það er alltaf möguleiki ef maður heldur trúnni og er að gefa sitt í þetta. Ég er viss um að strákarnir voru að gefa sitt í þetta í fyrri hálfleik en Bjöggi er landsliðsmarkmaður og einn sá besti. Við vorum að fá færi en menn gefast ekkert upp og það skilaði sigri.“

Björgvin Páll átti frábæran fyrri hálfleik í marki Hauka en oft þurfti hann að heldur lítið að hafa fyrir sínum vörslum. Sóknarmenn Selfoss hafa oft átt betri daga en fyrstu 30 mínúturnar í kvöld. Patrekur vildi minna á hversu ungir þessir sóknarmenn hans eru.

„Maður má ekki gleyma því að ég er með mjög unga stráka. Guðjón Ómar er 17 ára í hægra horninu, Haukur er 16 ára og Teitur er 19 ára. Þó þeir séu efnilegir og fengið mikla umfjöllun og allt það þá eru þetta ungir strákar og Haukaliðið er massíft. Þeir eru með mikið af reynsluboltum og Bjögga í markinu. Kannski var þetta pínu sjokk hvernig hann var að verja þetta en við komum til baka og það mega þeir eiga. Eins og Haukur til dæmis, hann hélt bara áfram, eins og allir í liðinu og það skilaði sigri,“ sagði sáttur Patrekur að lokum.

Stefán Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Schenker-höllinni í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

vísir/stefán
vísir/stefán

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira