Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Stjarnan 29-32 | Fjölnismenn náðu ekki að stríða Stjörnunni

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
vísir/anton
Stjarnan vann þriggja marka sigur á Fjölni í Grafarvogi í kvöld 29 - 32. Fjölnir komst í 3-2 en var það í eina skiptið í leiknum sem þeir voru yfir, síðan réði Stjarnan ferðinni. Staðan í hálfleik 13-18 gestunum í vil. 

Leikurinn byrjaði brösulega, liðin skiptust á að missa boltann og staðan 1-1 eftir 6 mínútur, en þá vöknuðu liðin til lífs og úr varð hraður og skemmtilegur leikur. Stjörnumenn leiddu leikinn, Sveinbjörn varði vel á meðan markvarslan hefði mátt vera betri Fjölnis megin í fyrri hálfleik. 



Síðari hálfleikur byrjaði vel, bæði lið komu grimm út á völlinn en Stjarnan náði fljótlega yfirhöndinni og kom sér í þægilega stöðu með 7 marka forystu eftir fyrstu 10 mínútur síðari hálfleiks. Stjarnan missti leikinn þá aðeins niður og hleypti Fjölni inní leikinn. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan 28 - 30 og möguleiki fyrir Fjölnir að næla sér í sinn fyrsta sigur en Stjarnan var sterkari aðilinn og kláraði leikinn örugglega með þremur mörkum 29 - 32. 



Af hverju vann Stjarnan:  Stjarnan var sterkari aðilinn í dag, vörnin var góð og Sveinbjörn varði vel í markinu. Þrátt fyrir að Fjölnir hafi sýnt góðann leik á köflum var það ekki nóg, Stjarnan sýndi yfirburði á flestum sviðum.  



Hverjir stóðu uppúr: Skytturnar þrjár Egill, Aron Dagur og Ari Magnús áttu fínan leik, ógna vel og skila sínu, Egill markahæstur þar með 7 mörk. Þá var Sveinbjörn í markinu með 16 varða bolta og átti flottann leik. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, var atkvæðamestur í liði Fjölnis með 9 mörk.



Hvað gekk illa: Fjölnir átti í erfiðleikum með vörn Stjörnunnar, þeir voru þéttir og Sveinbjörn með góðan leik fyrir aftan þá. Bæði lið misstu leikinn niður í klaufaskap með töpuðum boltum og auðveldum mörkum í bakið. Stjarnan var að fá of margar brottvísanir fyrir klaufaleg brot, en þeim gekk illa manni færri í kvöld. Ástgeir Sigmarsson spilaði sinn fyrsta leik í dag, hann fékk nokkrar mínútur en fann sig ekki svo Ingvar fór aftur inn og hrökk þá í gang. 

Hvað er næst: Í næstu umferð mætir Stjarnan íslandsmeisturum Vals í Garðabænum, það verður verðugt verkefni þá sérstaklega eftir stórt tap Valsmanna gegn FH í kvöld. Fjölnir mætir Fram í næstu umferð en í millitíðinni spila þeir leik gegn FH, leikur sem var frestað vegna evrópukeppni FHinga. Eitt er víst að við bíðum enn eftir fyrsta sigri Fjölnis.  

 

Einar: Hefði viljað klára leikinn fyrr

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var sáttur með leik sinna manna í dag en hefði viljað sá þá klára leikinn fyrr. 

Ég er hrikalega stoltur af strákunum, þeir voru góðir í dag gegn frábæru Fjölnisliði. Við unnum bara nokkuð sannfærandi en ég hefði viljað klára leikinn aðeins fyrr miðað við að hafa verið komnir í mest 7 marka forystu. En við kláruðum þetta og ég er ánægður með sigurinnsagði Einar

Þeir eru með hörkuskyttur og sérstaklega í Kristjáni. Það eru flottir ungir strákar hjá þeim sem voru að ná að opna vörnina okkar á köflum. Þetta var hraður leikur, mikið skorað úr hröðum miðjum og hraðaupphlaupum. Það var gott tempó í þessum leik og varnarlega var ég bara sáttur með strákana. 

Stjarnan missti forystuna niður bæði í fyrri hálfleik og síðan aftur í þeim síðari, Einar sagðist ekki hafa haft áhyggjur á þeim tímapunkti. 

Vorum að missa forystuna niður þegar við vorum manni færri og við vorum það á löngum kafla í seinni hálfleik. Þegar við vorum að spila sjö á sjö fannst mér við vera talsvert sterkari lið, þetta snérist bara um það að við myndum halda okkar mönnum inná sagði Einar en hann hafði lítið um dómara leiksins að segja. Stjarnan fékk talsvert meira af brottvísunum í leiknum en Fjölnir fyrir mis alvarleg brot. 

Sáttur við dómarana ? það er best að segja ekkert núna, þetta er örugglega okkur að kenna bara 

 



Stefán: Virðist vera saga okkar í Fjölni

Stefán Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, segir það vonbrigði að hafa tapað á heimavelli í kvöld. 

Þetta eru vonbrigði að tapa þessum leik, virðist vera saga okkar í Fjölni. Við erum ekki að nýta færin okkar nógu vel, við tökum slakar ákvarðanir í sókninni sem leiða af sér auðveld mörk. Við keyrðum vel á þá þegar þeir duttu niður en nýttum okkar færi bara ekki nógu vel. Í fyrri hálfleik skora þeir 5-0 á okkur og það vegur þungt í svona leik.sagði Stefán Arnar

Markvarslan datt ekki inn í fyrri hálfleiknum en þetta skrifast ekki eingöngu á Ingvar því samvinna milla varnar og markmanns var ekki góð. Markvarslan í seinni hálfleik var síðan allt önnur, ég var ánægður með hana þásagði Stefán sem var einnig ánægður með karakterinn sem liðið sýndi þegar þeir komu til baka þrátt fyrir að hafa ekki náð yfirhöndinni í leiknum. 

Fjölnir sýndi á köflum góðan leik og var Stefán ánægður með stráka eins og Kristján Örn, Svein Jóhannsson á línunni og Brynjar Loftson. En þess á milli sýndi liðið óskipulagðan sóknarleik sem kostaði þá auðveld mörk. 

Við vorum klaufar, nýting dauðafæra ekki góð, það var óðagot og við vorum að tapa boltanum. Stjarnan er bara með hörkulið og við verðum að nýta þetta.

Þú færð alltaf það sem þú átt skilið svo nei við áttum ekkert meira skilið útúr þessum leik. Við stefnum á sigur í næsta leik. Þetta eru allt hörkuleikir, FH er með hörkulið og vonandi verða þeir bara þreyttir eftir vítakeppnina og það er aldrei að vita hvað gerist.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira