Skoðun

Áhrif nýju stjórnarskrárinnar – Dæmi

Hjörtur Hjartarson skrifar
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eftir Hrun var ályktað að Guðlaugur Þór Þórðarson skyldi segja af sér þingmennsku. Ástæðan var sú, að  upp komst að þingmaðurinn hefði þegið tugmilljónir í framboðsstyrki, en þar voru gjafmildust fyrirtækin Baugur, FL Group og Fons, öll þekkt úr Hrun sögu.

Guðlaugur er nú ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Íslands. Ef til vill má hafa það til marks um hvernig (mis)lukkast hefur að endurnýja íslensk stjórnmál eftir þann vitjunartíma sem Hrunið var, tímann sem öllum er hollast að þekkja. Við skulum samt ekki örvænta.

Góðu fréttirnar eru þær, að vitjunartíminn er ekki liðinn. Enn er tækifæri. Í kjölfar Hrunsins gerðist nefnilega kraftaverk: Almennir borgarar á Íslandi sömdu sér nýja stjórnarskrá. Eftir langt, erfitt og fallegt lýðræðislegt ferli lá hún síðan fyrir fullbúin af hálfu Alþingis í mars 2013. Sumum kann að koma þetta á óvart, en það er þá vegna þess að stjórnmálaflokkarnir hafa nær allir farið með þessa staðreynd eins og mannsmorð, af ástæðum sem ekki verða raktar hér. Í umræddu skjali, í nýju stjórnarskránni, liggur tækifærið til endurnýjunar. Kjósendur geta gripið það 28. október með því að kjósa aðeins flokka sem viðurkenna afdráttarlaust fullveldi þjóðarinnar, lögmæti nýju stjórnarskrárinnar, og heita því að samþykkja hana á næsta kjörtímabili, helst fyrir 1. desember 2018.

Dæmið sem lofað var í fyrirsögn er þetta: Hefði nýja stjórnarskráin verið í gildi í alþingiskosningunum eftir umræddan landsfund, hefðu almennir kjósendur Sjálfstæðisflokksins, sem og kjósendur annarra flokka, sjálfir fengið að raða þeim lista sem þeir kusu. Skemmra verður ekki gengið í átt til persónukjörs samkvæmt nýju stjórnarskránni þótt hún bjóði líka uppá að ganga mun lengra, standi vilji löggjafans til þess. En, sem sagt, ef áhrif kjósenda í kosningum hefðu verið aukin með þessum hætti er ólíklegt að Guðlaugur Þór gengdi nú ráðherraembætti í ríkisstjórn Íslands.

Höfundur er stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×