Innlent

Páll vonar að ný úttekt ýti við heilbrigðisyfirvöldum

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Enginn geðlæknir er starfandi á fangelsinu Litla-Hrauni. Fréttablaðið/Eyþór
Enginn geðlæknir er starfandi á fangelsinu Litla-Hrauni. Fréttablaðið/Eyþór
Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunnar bindur vonir við að ný úttekt hreyfi við heilbrigðisyfirvöldum. Fréttablaðið/Anton Brink
„Ég er mjög ánægður með að fá enn eina úttektina og vona að hún skili meiru en allar hinar úttektirnar sem hafa verið gerðar og hafa ekki skilað neinu af hálfu Alþingis,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, um stjórnsýsluendurskoðun sem Ríkisendurskoðun vinnur nú að um heilbrigðisþjónustu fanga.

Ríkisendurskoðun vann skýrslu um skipulag og úrræði í fangelsismálum árið 2010, þar sem bent var á að úrbóta væri þörf. Skýrslunni var fylgt eftir árin 2013 og 2016. Þrátt fyrir að velferðarráðuneytið segðist hafa unnið að úrbótum telur Ríkisendurskoðun lítinn sjáanlegan árangur af þeim. Þetta kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar.

Stofnunin hóf forkönnun á heilbrigðisþjónustu fanga í júní síðastliðnum og niðurstöður hennar benda til að þótt almenn heilbrigðisþjónusta virðist viðunandi sé úrbóta þörf í geðheilbrigðismálum og áfengis- og vímuefnameðferð. Þá sé almennri stefnumörkun í heilbrigðismálum fanga ábótavant. Því hefur Ríkisendurskoðun ákveðið að hefja aðalúttekt á heilbrigðisþjónustu fyrir fanga.

Páll segir engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu heilbrigðisyfirvalda frá því að fyrsta úttektin var gerð á þessum málaflokki fyrir nokkrum árum. „Það hefur ekkert breyst á þessum tíma. Það eina sem hefur verið gert, er að það hefur verið opnað stórt fangelsi og það er ekki einu sinni búið að bjóða út heilbrigðisþjónustu fyrir það,“ segir Páll.

Stefnt er að því að stofnunin birti opinbera skýrslu til Alþingis með niðurstöðum úttektarinnar í mars á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×