Erlent

Tala látinna í Mogadishu í 358

Samúel Karl Ólason skrifar
Þúsundir Sómala komu saman við árásarstaðinn í dag til að biðja fyrir þeim sem fórust.
Þúsundir Sómala komu saman við árásarstaðinn í dag til að biðja fyrir þeim sem fórust. Vísir/AFP
Tala látinna eftir sprengjuárásina í Mogadishu þann 14. október er nú komin í 358 og er 56 enn saknað. Yfirvöld kenna hryðjuverkasamtökunum al-Shabab, sem eru bandamenn al-Qaeda, um árásina en talsmenn samtakanna þvertaka fyrir að hafa framið hana.

Sendiferðabíll hlaðinn sprengiefnum var sprengdur í loft á fjölförnum gatnamótum. Við hlið bílsins var olíuflutningabíll sem sprakk einnig og stækkaði þannig sprenginguna. Nærliggjandi hús hrundu og myndaðist mikið eldhaf. Minnst 228 eru særðir, samkvæmt frétt BBC.



Talið er að samtals hafi verið 600 til 800 kíló af sprengiefnum í bílnum.

Ekki er víst hvort að gatnamótin hafi verið ætlað skotmark árásarmannanna, en mögulegt þykir að ökumaðurinn hafi sprengt bílinn í loft upp eftir að hermenn skutu á bílinn og sprengdu eitt dekk hans.

Stjórnvöld Sómalíu hafa kallað eftir blóðgjöfum frá almenningi. Þúsundir Sómala komu saman við árásarstaðinn í dag til að biðja fyrir þeim sem fórust.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar mun Mohamed Abdullahi Mohamed, forseti Sómalíu, lýsa yfir allsherjar stríði gegn al-Shabab og stendur til að það hefjist á morgun. Nú þegar eru um tuttugu þúsund hermenn Afríkusambandsins í Sómalíu að hjálpa heimamönnum við að ráða örlögum samtakanna sem eru mjög virk í suðurhluta landsins.



Þá segja yfirmenn í sómalska hernum að Bandaríkin muni einnig hjálpa til gegn hryðjuverkasamtökunum. Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna tilkynntu í dag að drónaárásir hefðu verið hafnar að nýju gegn vígamönnum al-Shabab.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×