Enski boltinn

Upphitun: Ná Jói Berg og félagar að stoppa City? │ Myndband

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Níunda umferð ensku úrvalsdeildarinnar heldur áfram í dag með sjö leikjum, en nýliðar Brighton lögðu West Ham í fyrsta leik umferðarinnar í gærkvöld.

Við byrjum leik á Stamford Bridge þar sem Englandsmeistarar Chelsea fá Watford í heimsókn. Búast má við hörkuleik, en Watford hefur byrjað tímabilið frábærlega og er í fjórða sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Chelsea í fimmta sætinu. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport frá 11:20.

Topplið Manchester City fær Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í Burnley í heimsókn á Etihad völlinn. City-liðið getur ekki hætt að skora, en vörn Burnley hefur verið sterk og spurning hvort þeir geti haldið aftur af sóknarkrafti City.

Nýliðar Huddersfield taka á móti Manchester United á John Smith's völlinn í Huddersfield. Eftir flotta byrjun hefur gengi nýliðana aðeins farið niður á við og er liðið í 13. sæti með níu stig. United er hins vegar í öðru sætinu, tveimur stigum frá grönnunum í City. Leikur Huddersfield og United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Newcastle fær Crystal Palace í heimsókn, en Palace sóttu sín fyrstu stig í deildinni í síðustu umferð þegar liðið sigraði Chelsea.

Stoke og Bournemouth mætast á bet365 vellinum, en bæði lið eru að berjast í neðri hlutanum, Bournemouth í fallsæti og Stoke ekki langt frá í sextánda sætinu. Í öðrum slag liða í neðri hlutanum fer Leicester til Wales og mætir Swansea.

Síðasti leikur dagsins er svo viðureign Southampton og West Brom sem fram fer á St. Mary's í Southampton. Sá leikur er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 16:20.

Upphitunarmyndband fyrir leiki dagsins má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×