Innlent

Stórþjófnaður úr ólæstri ferðatösku ferðalangs og verðmætum skartgripum stolið

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni tilkynning um stórþjófnað úr ferðatösku ferðalangs. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni tilkynning um stórþjófnað úr ferðatösku ferðalangs. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/GVA
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni tilkynning um stórþjófnað úr ferðatösku ferðalangs. Þjófnaðurinn átti sér stað þegar viðkomandi var á leið til Bandaríkjanna. Verðmæti þess sem stolið var nam hátt á þriðja hundrað þúsund krónum samkvæmt tilkynningu frá lögreglu. Ferðamaðurinn saknaði einkum verðmætra skartgripa, snyrtivara og fleira. Nokkur bið hafði orðið á því að hópurinn sem viðkomandi hafði ferðast með fengi farangur sinn þegar komið var á áfangastað. Þegar hópurinn tók upp úr ferðatöskunum við komuna á hótelið sitt kom í ljós að búið var að opna þær sem voru ólæstar og stela ýmsu úr þeim.

Sveðja fannst hjá grunuðum fíkniefnasala

Lögreglan á Suðurnesjum fann umtalsvert magn af fíkniefnum í húsleit með aðstoð sérsveitar Ríkislögreglustjóra í vikunni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu leikur sterkur grunur á að sá sem dvaldi þar hafi stundað sölu fíkniefna. Karlmaður á þrítugsaldri dvaldi í íbúðinni í óþökk húseigenda.

Þegar lögreglu bar á vettvang var ljóst að mikil fíkniefnaneysla hafði átt sér stað í íbúðinni. Í húsleitinni fundust meint amfetamín, e–töflur, kannabisefni, sterar og fleiri efni víðs vegar um íbúðina ásamt vog og sölupokum. Í íbúðinni fundust einnig Taser rafstuðtæki og sveðja. Sérsveitin var fengin til aðstoðar við húsleitina þar sem grunur lék á að maðurinn væri vopnaður. Hann var handtekinn á staðnum ásamt tveimur öðrum sem voru gestkomandi í íbúðinni en lögregla fann einnig fíkniefni á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×