Innlent

Þuríður Harpa nýr formaður Öryrkjabandalags Íslands

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þuríður Harpa Sigurðardóttir ætlar að hafa samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi í sínum störfum.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir ætlar að hafa samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi í sínum störfum. vísir/hanna
Þuríður Harpa Sigurðardóttir var í morgun kjörin nýr formaður Öryrkjabandalags Íslands á aðalfundi ÖBÍ. Þuríður Harpa tekur við af Ellen Calmon, sem hefur verið formaður bandalgsins síðustu tvö kjörtímabil eða frá 2013. Þuríður Harpa fékk 68 atkvæði í formannskjörinu en Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland, fékk 58 atkvæði.

Samkvæmt tilkynningu frá Öryrkjabandalaginu ætlar Þuríður Harpa að hafa samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi í sínum störfum. 

 „Samninginn þurfum við að fá lögfestann til að hann veiti okkur þau réttindi og þann slagkraft sem þarf í mannréttindabaráttunni. Fátækt, útskúfun, mismunun eða misrétti á ekki að líðast. Þá legg ég áherslu á lögfestingu á NPA,notendastýrðri persónulegri aðstoð, og baráttu fyrir bættum kjörum örorkulífeyrisþega, fatlaðs fólks og langveikra.“

Þuríður Harpa er með BA próf í grafískri hönnun frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands. Hún lauk diplómanámi í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands 2015. Síðustu 13 ár hefur hún gengt starfi framkvæmdastjóra prentsmiðju og auglýsingastofu á Suðárkróki, og meðal annars gefið vikulega út svæðisfréttablað og dagskrárblað auk ýmissa prent- og hönnunarverkefna. Frá 2011 hefur Þuríður Harpa verið formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði og er í dag varaformaður landssambands Sjálfsbjargar. Þá situr hún einnig í stjórn Sjálfsbjargarheimilisins. Hún hefur einnig starfað í vinnuhópum á vettvangi ÖBÍ þar sem fjallað hefur verið um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá hefur Þuríður Harpa átt sæti í málefnahópi ÖBÍ um sjálfstætt líf, komið fram á ýmsum málþingum og ráðstefnum um málefnið og skrifað greinar í blöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×