Erlent

108 grunaðir barnaníðingar handteknir í Brasilíu

Anton Egilsson skrifar
Torquato Jardim, dómsmálaráðherra Brasilíu,
Torquato Jardim, dómsmálaráðherra Brasilíu, Vísir/AFP
Lögregla í Brasilíu handtók í gær 108 einstaklinga sem grunaðir eru um barnaníð. Lögregluaðgerðin var sú umfangsmesta sem ráðist hefur verið í af þessu tagi í Suður-Ameríku. BBC greinir frá þessu.

Handtökurnar áttu sér stað í 24 ríkjum í landinu auk höfuðborgarinnar Brasilíu. Torquato Jardim, dómsmálaráðherra Brasilíu, segir að þeir einstaklingar sem handteknir voru tilheyri hring barnaníðinga sem framleiði og dreifi barnaklámi sín á milli í gegnum tölvur og síma.  

Rannsóknin sem leiddi til handtakanna var sex mánuði í bígerð en rannsakendur fundu á þeim tíma yfir 150 þúsund skrár sem innihéldu myndir eða myndskeið sem flokkast sem barnaklám. Voru skrárnar geymdar á hinu svokallaða hulduneti en ekki er hægt að finna efni þess með hinum hefðbundnu leitarvélum á internetinu.  

Á meðal hinna handteknu eru fyrrverandi lögreglumenn, ríkisstarfsmenn og menn sem stýra yngri flokka starfi hjá íþróttafélögum. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvort að barnaníðshringurinn teygi anga sína út fyrir landamæri Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×