Erlent

Klúður í nauðgunarmáli íslenskrar konu dæmi um vanhæfni lögreglunnar í New York

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mál íslenskrar konur er miðpunktur í harðri gagnrýni á kynferðisbrotadeild lögreglunnar í New York. Konunni var nauðgað í borginni árið 2009 en lögreglufulltrúinn sem fór með rannsókn málsins sinnti því illa. 

Þetta kemur fram í umfjöllun Newsweek sem byggð er á minnisblöðum frá saksóknaraembættinu í New York frá árinu 2013. Þar voru starfsaðferðir og vanhæfni lögreglufulltrúa innan kynferðisbrotadeildarinnar harðlega gagnrýnd.

Íslenska konan sem um ræðir var ferðamaður í New York árið 2009. Sofnaði hún á sófa í næturklúbbi í borginni. Vaknaði hún síðar við það að karlmaður væri að nauðga henni í íbúð hans eftir að hann hafði dregið hana heim til sín.

Eftir að brotamaðurinn lét hana fá 20 dollara fyrir leigubíl komst hún til vinkvenna sinna sem sannfærðu hana um að kæra málið til lögreglunnar.

Þar tók lögreglufulltrúi að nafni Rafael Astacio við henni. Í viðtali á lögreglustöðinni sagðist konan ekki vera viss um að hún vildi halda áfram með málið, þar sem hún væri á heimleið til Íslands.

Reyndi ekki að rannsaka málið til hlítar

Astacio lokaði málinu á þeim grundvelli að konan væri ósamvinnuþýð. Svo reyndist hins vega ekki vera um mánuði síðar þegar annar lögreglufulltrúi leysti málið.

Fann hann DNA-samsvörun úr nauðgaranum, hafði samband við íslensku konuna sem gat borið kensl á manninn eftir að hafa verið sýndar myndir af honum. Maðurinn var síðar handtekinn og dæmdur í þriggja ára fangelsi.

Síðar kom í ljós að Astacio hafði sagt yfirmönnum sínum að öryggisverðir á næturklúbbnum sem konan hafði verið á hefðu ekki viljað veita sér upplýsingar né aðgang að upptökum úr öryggismyndavélum vegna málsins.

Þegar rannsakandi á vegum saksóknaraembættisins fór hins vegar í málið vegna annars máls reyndist auðsótt mál að fá upptökur af því þegar nauðgarinn dró konuna út af klúbbnum. Astacio viðurkenndi síðar að hafa aldrei reynt að ná í upptökurnar.

Breyst til hins betra

Þessi misstök Astacio, og fleiri hjá öðrum lögreglufulltrúum innan deildarinnar, eru rakin í minnisblaði saksóknaraembættisins og eru þar sögð þykja lýsa vanhæfni innan raða kynferðisbrotadeildarinnar.

Þar eru fulltrúarnir gagnrýndir fyrir að loka málum alltof fljótt án þess að rannsaka þau til hlítar, sem og koma illa fram við fórnarlömb kynferðisbrota sem leitað höfðu til deildarinnar.

Í umfjöllun Newsweek kemur fram að svo virðist sem að slíkar starfsaðferðir eigi ekki lengur upp á pallborðið hjá kynferðisbrotadeildinni.

Lögreglufulltrúinn Astaci sem klúðraði nærri því máli íslensku stúlkunnar situr nú í fangelsi þar sem hann afplánar sex ára dóm. Hann var fundinn sekur fyrir þátt sinn í glæpahring sem starfaði á árunum 2009-2012 og stal vörum og fjármunum að virði sex milljón dollurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×