Innlent

Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ríkisstjórn Spánar ætlar að svipta Katalóníu sjálfstjórnarvaldi. Þing Katalóníu verður leyst upp og nýjar kosningar haldnar. Við fjöllum um þetta í fréttum Stöðvar 2 klukkan hálf sjö og ræðum við sérfræðinga um afleiðingar þessarar ákvörðunar stjórnvalda í Madríd.

Við fjöllum líka um kynferðisbrot í íþróttahreyfingunni en afrekskona í sundi sem sakar fyrrverandi þjálfara um kynferðisofbeldi er ekki sú eina sem hefur kvartað undan honum. Við ræðum við formann Sundsambands Íslands um þetta mál.

Þá fjöllum við um jarðskjálftana á Suðurlandi en hátt í fimm hundruð minni jarðskjálftar hafa mælst þar undanfarinn sólarhring og stendur jarðskjálftahrinan enn yfir. Í fréttatímanum fjöllum við líka um Facebook-árásir en fjölmargir Íslendingar hafa orðið fyrir barðinu á tölvuhakkara sem hefur komist yfir aðganga og lykilorð þeirra á Facebook.

Við verðum í beinni frá Sauðárkróki þar sem fyrirtækið Heilsuprótein er að hefja starfsemi en fyrirtækið, sem er samstarfsverkefni Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga, framleiðir prótein úr afgangsafurðum í mjólkurframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×