Innlent

Lögreglan ók utan í bifreið til að stöðva eftirför í Reykjavík

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ökumaður stakk af frá vettvangi eftir umferðaróhapp við Miklubraut og Lönguhlíð í nótt.
Ökumaður stakk af frá vettvangi eftir umferðaróhapp við Miklubraut og Lönguhlíð í nótt. Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lenti í eftirför við ökumann undir áhrifum fíkniefna í nótt. Ökumaðurinn neitaði að stoppa þegar lögregla hafði afskipti af honum við Arnarbakka. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu jók hann svo hraðann til þess að koma sér undan. Þetta varð til þess að lögregla ók utan í bifreið hans við bakkabraut og lauk eftirförinni þar. Ökumaðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa en eins og áður sagði var hann undir áhrifum fíkniefna. 

Ökumaður var stöðvaður í akstri á Vesturlandsvegi á 130 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaðurinn reyndist einnig vera ölvaður. Annar ökumaður var sem var stöðvaður reyndist aka undir áhrifum fíkniefna og var sviptur ökuréttindum. Ölvaður maður datt á höfuðið við Ölhúsið og var færður á sjúkrahús til aðhlynningar.

Óskað var eftir lögreglu að Félagsheimili Fáks en þar hafði ölvaður einstaklingur brotið rúðu. Viðkomandi var handtekinn og vistaður. Óskað var eftir aðstoð í miðborginni um klukkan þrjú í nótt þar sem ráðist hafði verið á öryggisvörð frá Securitas. Málið er í rannsókn samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Ökumaður stakk af frá vettvangi eftir umferðaróhapp við Miklubraut og Lönguhlíð í nótt. Ökumaðurinn kom þó nokkru síðar akandi aftur á vettvang. Þrír erlendir aðilar voru handteknir vegna málsins og vistaðir í fangageymslum. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×