Erlent

Stranger Things-stjarna rekur umboðsmanninn í kjölfar ásakana um kynferðisofbeldi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Finn Wolfhard sést hér staddur í veislu vegna Golden Globe-verðlaunanna í byrjun árs. Á meðal þeirra sem héldu veisluna var framleiðslufyrirtækið The Weinstein Company, fyrirtæki Harvey Weinstein, en merki þess má sjá neðst til vinstri á mynd.
Finn Wolfhard sést hér staddur í veislu vegna Golden Globe-verðlaunanna í byrjun árs. Á meðal þeirra sem héldu veisluna var framleiðslufyrirtækið The Weinstein Company, fyrirtæki Harvey Weinstein, en merki þess má sjá neðst til vinstri á mynd. Vísir/Getty

Finn Wolfhard, einn aðalleikara Netflix-þáttaraðarinnar Stranger Things, hefur rekið umboðsmann sinn, Tyler Graham, eftir að sá síðarnefndi var sakaður um kynferðisofbeldi. Wolfhard hefur einnig hætt öllum viðskiptum við fyrrum umboðsskrifstofu sína.



Tveir menn, sem báðir höfðu verið á skrá hjá umboðsskrifstofunni APA, þeirri sömu og Wolfhard sagði skilið við í vikunni, hafa stigið fram og sakað Graham um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi. Í frétt E! News segir að ásakanirnar séu ástæða þess að hin unga Stranger Things-stjarna hafi rift samningi sínum við umboðsskrifstofuna.

Leikarinn Blaise Godbe Lipman er annar mannanna sem sakar Graham um kynferðisofbeldi.Vísir/Getty

Bauð á „viðskiptatengda fundi“

Mennirnir tveir, Blaise Godbe Lipman og Lucas Ozarowski, segja Graham hafa narrað þá til sín undir því yfirskyni að um væri að ræða viðskiptatengdan fund. Þar hafi hann svo brotið á þeim. Lipman segir téðan fund með Graham hafa átt sér stað fyrir tíu árum síðan en hann greindi frá ofbeldinu í Facebook-færslu í byrjun vikunnar. Ozarowski, sem tjáði sig einnig í Facebook-færslu, segir Graham hafa beitt sig ofbeldi í janúar á síðasta ári.



Graham var tafarlaust vikið frá störfum eftir að ásakanirnar voru bornar á hendur honum, að því er fram kemur í tilkynningu frá APA-umboðsskrifstofunni.



Um tvær vikur eru nú síðan kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein var vikið úr starfi hjá framleiðslufyrirtæki sínu The Weinstein Company. Fjölmargar konur hafa stigið fram og sakað Weinstein um að hafa áreitt sig kynferðislega en hann var einnig rekinn úr bandarísku kvikmyndaakademíunni vegna ásakananna.

Wolfhard fer með hlutverk Mike Wheeler í hinni geysivinsælu Netflix-þáttaröð Stranger Things, sem frumsýnd verður á efnisveitunni þann 27. október næstkomandi. Þá fer hann með hlutverk Richie Tozier í hryllingsmyndinni It sem enn er sýnd í kvikmyndahúsum landsins.



Facebook-færslu Lucas Ozarowski má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×