Skoðun

Bréf til Katrínar Jakobsdóttur

Edda Þórarinsdóttir skrifar
Kæra Katrín.

Mannréttindi eru það mikilvægasta í siðmenntuðu þjóðfélagi og heilbrigð stjórnvöld mega aldrei gleyma því.

Það eru mannréttindi að fá að kjósa, það eru mannréttindi að búa við réttlátt dómskerfi og það eru mannréttindi að fá að eldast með reisn.

Í upphafi lífeyrissjóða á Íslandi var þáttaka í sjóðunum aðeins leyfð launþegum sem voru í verkalýðsfélögum, en þeir sem af einhverjum ástæðum störfuðu sjálfstætt voru flokkaðir sem atvinnurekendur jafnvel þótt þeir væru alla tíð einyrkjar í sínu “fyrirtæki”. Þessi útilokun „atvinnurekenda” til að borga í lífeyrissjóði varði mestalla síðustu öld.

Í kjölfar hrunsins 2008 ákvað ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar að leggja svokallaðan „auðlegðarskatt” á þetta fólk og lagðist sá skattur með miklum þunga á nokkuð stóran hóp eldri borgara, eða um 7200 manns. Hóp sem hafði reynt að spara til elliáranna og búa sér til sinn eigin lífeyrissjóð, til dæmis með því að fjárfesta í steinsteypu - kaupa eða byggja húsnæði - eða jafnvel með því að kaupa ríkisskuldabréf. Þetta er hvorki ólöglegt né glæpsamlegt.

Í viðtölum við þig nýverið hefur komið fram að þið í VG virðist hafa áhuga á að endurvekja þennan óréttláta skatt og leggja hann á lífeyri þeirra sem ekki fengu tækifæri til að greiða í hefðbundna lífeyrissjóði. Hvaða réttlæti er í því, á meðan þeim sem voru launþegar og gátu geymt ellilífeyri sinn í lífeyrissjóðakerfinu er ekki refsað með auðlegðarskatti? Ég vona að VG sýni þann kjark að draga þessar skattahugmyndir til baka og brjóti ekki mannréttindi á öldruðu fólki.

Með kveðju,

Edda Þórarinsdóttir - leikkona og fyrrverandi formaður Félags íslenskra leikara.




Skoðun

Sjá meira


×