Innlent

Franz segir að sköpunargyðjan sé miklu kraftmeiri edrú

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Franz Gunnarsson einn af forsprökkum rokksveitarinnar Ensími heldur útgáfutónleika vegna plötunnar Kaflaskila í Norræna húsinu í kvöld. Franz vann plötuna í nafni sólóverkefnisins Paunkholm. Titill plötunnar vísar í nýjan lífsstíl en platan er uppgjör við þann tíma er hann neyti áfengis og annarra vímuefna.

Flestir kannast við rokkhljómsveitina Ensími sem naut mikilla vinsælda upp úr aldamótunum síðustu. Lagahöfundurinn Franz Gunnarsson, einn af stofnendum Ensími, hefur nú gefið út nýja plötu, Kaflaskil undir sólóverkefninu Paunkholm. Platan er persónulegt uppgjör Franz við fortíðina en hann fór í meðferð og sagði skilið við áfengi og önnur vímuefni fyrir rúmum tveimur árum. 

„Þetta er örugglega það persónulegasta sem ég hef nokkru sinni gert. Þetta var í raun og veru verkefni til að sjá hvort ég gæti haldið áfram í músík. Þetta átti fyrst og fremst að vera tvö þrjú lög en endaði í heilli plötu sem var uppgjör við þennan gamla tíma, þess vegna heitir hún Kaflaskil,“ segir Franz. 

Franz er með úrvalshóp tónlistarfólks í þessu verkefni en þar má nefna Kristófer Jensson, Tinnu Marínu, Ernu Hrönn, Bryndísi Ásmunds og Eyþór Inga svo einhver nöfn séu nefnd. Franz segir að það sé miklu betra að semja edrú. Sköpunargyðjan sé kraftmeiri.

„Það má segja að neyslan hafi drepið allan sköpunarkraftinn á endanum. Mig langaði svo til að hætta þessu því mín neysla tengdist svo mikið tónlistarheiminum. Þetta var orðin svo mikil kvöð en þegar ég byrjaði að vinna þessu plötu fann ég þennan lífskraft aftur og þessa sköpunargleði sem býr innra með listafólki,“ segir Franz. 

Paunkholm heldur útgáfutónleika í kvöld í Norræna húsinu en það verður í eina skipti sem tónlistarmennirnir sem komu að gerð plötunnar koma allir fram saman opinberlega. 


Tengdar fréttir

„Dagurinn sem ég áttaði mig á því að ég get gert þetta edrú“

Að sögn Franz er platan eins konar persónulegt uppgjör við þann tíma þegar hann glímdi við fíkn og fylgifiska hennar. "Neyslumunstur mitt var samofið vinnu minni sem tónlistarmaður og þegar ég loksins losnaði úr viðjum vanans, þá trúði ég því blint að ferli mínum væri lokið, að ég gæti hreinlega ekki unnið að listinni edrú,“ útskýrir Franz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×