Fótbolti

Cavani bjargaði PSG eftir að Neymar sá rautt

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Edinson Cavani og Neymar eru ekki bestu vinir, en komu saman að öðru marki PSG í kvöld.
Edinson Cavani og Neymar eru ekki bestu vinir, en komu saman að öðru marki PSG í kvöld. vísir/getty
Edinson Cavani bjargaði stigi fyrir PSG þegar liðið sótti Marseille heim í Ligue 1 í Frakklandi.

Luiz Gustavo kom heimamönnum yfir strax á 16. mínútu með glæsilegu skoti utan af velli.

Toppliðið var þó ekki lengi að jafna, en Cavani lagði boltann fyrir Neymar sem skoraði jöfunarmarkið á 33. mínútu.

Thauvin kom Marseille yfir aftur á 82. mínútu eftir glæsilegan undirbúning Clinton N'Jie.

Það er mikill hiti í leikjum þessara liða í Frakklandi og voru áhorfendur kastandi hlutum í átt að Neymar þegar hann tók hornspyrnur.

Brasilíska stórstjarnan var orðinn pirraður og fékk gult spjald á 85. mínútu fyrir pirringsbrot. Aðeins mínútu seinna fékk hann svo sitt annað gula spjald, og þar með rautt.

Lucas Ocampos tæklaði Brasilíumanninn, sem reiddist og skallaði Ocampos. Hann féll þá með tilþrifum og dómarinn spjaldaði Neymar.

Það var svo Úrúgvæinn Cavani sem bjargaði PSG með marki á lokamínútu uppbótartímans, og liðið því enn taplaust á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×