Erlent

Aðgerðaleysi Evrópuríkja í tengslum við skattaundanskot sætir gagnrýni

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Baráttunni í ESB gegn skattaundanskotum er ábótavant, segir í nýrri skýrslu Evrópuþingsnefndar.
Baráttunni í ESB gegn skattaundanskotum er ábótavant, segir í nýrri skýrslu Evrópuþingsnefndar.
ESB Skattaundanskotsnefnd Evrópuþingsins dregur þá ályktun í nýsamþykktri skýrslu að baráttu aðildarríkja Evrópusambandsins, ESB, gegn skattaundanskotum hafi verið ábótavant. Löggjöf ESB-ríkja varðandi skattaundanskot og peningaþvætti hafi ekki verið samræmd.

Framkvæmdastjórn ESB er jafnframt gagnrýnd fyrir að fylgja ekki eftir lögum. Nefndin var sett á laggirnar eftir að Panamaskjölin voru birt.

Danskir fjölmiðlar hafa það eftir Evrópuþingmanninum Jeppe Kofod, sem er einn skýrsluhöfunda, að stærstu skúrkarnir séu auðvitað bankar, lögfræðingar, endurskoðendur og ráðgjafar sem hjálpað hafi til við skattaundanskot og peningaþvætti auk þess sem þeir hafi látið hjá líða að tilkynna yfirvöldum um grunsamlegar tilfærslur á fé.

Í skýrslunni er bent á að sérstakri nefnd á vegum ráðherraráðsins, sem ætlað var að meta skattalög sem gilda í ESB-ríkjum og víðar, hafi lítið orðið ágengt í vinnu sinni undanfarin 19 ár. Nefndin á að fá aðildarríki ESB til að samþykkja að breyta eða fella úr gildi þau skattalög eða -reglur sem talin eru stuðla að skaðlegri skattasamkeppni. Hvetja átti aðildarríkin til að forðast að setja slíkar reglur í framtíðinni. Einstök ríki geti komið í veg fyrir breytingar án þess að vitað sé hver þau eru þar sem leynd hvíli yfir öllum vinnugögnum nefndarinnar. Tillögur hennar þurfa samþykki allra.

Kofod segir að breyta þurfi verklagi nefndarinnar. Þegar um innri markað sé að ræða sé ekki hægt að einstök ríki verji eigin skattastefnu þannig að þau aðstoði í raun við stuld á skatttekjum annars lands með því að vera skattaskjól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×