Skoðun

Drífum í þessu

Margrét Tryggvadóttir skrifar
Við getum verið svo samhent og flott! Það er öllum ljóst þegar stelpurnar okkar og auðvitað strákarnir vinna fótboltaleiki. En svoleiðis líður mér samt ekki alltaf. Þegar ráðamenn þjóðarinnar rata ítrekað í heimsfréttirnar fyrir hin fjölbreytilegustu spillingarmál er dýpra á þjóðarstoltinu. Samt vantar ekki nema herslumuninn á að við getum haft það svo gott saman. Við þurfum bara að ráða bót á nokkrum atriðum. Fyrst það sem við verðum að laga strax – og strax er einmitt ekki teygjanlegt hugtak. Sumt kostar en fjár­magnið er í aug­sýn.



  • Þegar maður verður veikur á maður ekki sjálf­krafa að verða gjald­þrota líka. Stefnum á gjald­frjálst heil­brigð­is­kerfi. Það er ekki góð hug­mynd að dreifa kostn­að­inum bara öðru­vísi á not­end­ur. Efna­m­inna fólk mun veigra sér við að leita læknis nema í neyðar­til­fellum og þá er hætt við að sjúk­dómar grein­ist á síð­ari stigum þegar þeir eru ekki eins við­ráð­an­leg­ir. Það er miklu dýr­ara fyrir okkur öll. Og talandi um heilbrigðiskerf­ið. Þar þarf meira fé.

  • Unga fólk­inu okkar líður ekki öllu vel í sál­inni. Það er fárán­lega dýrt að leita til sálfræð­ings á Íslandi. Sál­fræð­ingar eiga að sjálf­sögðu að vera hluti af opinbera heilbrigðis­kerf­inu. For­varnir og snemmtæk íhlutun er nefni­lega besta fjár­fest­ing sem eitt sam­fé­lag getur varið fé sínu í.

  • Biðlistar vegna þjón­ustu fyrir börn og ung­menni eiga ekki að fyrirfinn­ast. Árs­bið eftir grein­ingu eða með­ferð er fimmt­ungur af ævi fimm ára barns. Þjón­usta við börn má aldrei vera háð efna­hag eða getu for­eldr­anna. Því ættum við að reyna að veita sem mesta og besta þjón­ustu í gegnum skóla­kerf­ið. Og þar þarf líka meiri pen­inga.

  • Hlúum betur að barnafjölskyldum. Barnabætur þarf að tvöfalda og ekkert múður. Samfélagið þarf að vera sveigjanlegra og snúast um fleira en vinnu.

  • Skólarnir okkar á öllum skólastigum eru fjársveltir. Það verðum við að laga enda menntun grundvöllur að betra samfélagi í framtíðinni.

  • Til þess að ungt fólk sjái fram­tíð á Íslandi þarf það að geta búið einhvers stað­ar. Það er ekki raunin nú. Í nágranna­löndum okkar eru víða rekin félags­leg hús­næð­is­kerfi fyrir almenn­ing, laus undan hagnað­ar­kröfum verk­taka­væð­ing­ar­innar og hávaxta­stefn­unn­ar. Samfylkingin ætlar að fara þá leið.

  • Líf­eyr­is­þegar eiga að geta lifað mann­sæm­andi lífi og þeim á ekki að vera refsað fyrir að vinna þegar þeir geta.

  • Við þurfum að leggja Útlend­inga­stofnun nið­ur. Þar virðist vera und­ar­legur vinnu­staða­mórall sem von­laust er að vinda ofan af. Laga­breyt­ingar munu því ekki ná að breyta því sem breyta þarf þegar lögin er túlkuð með jafn­und­ar­legum og ómann­úð­legum hætti og raun ber vitni. Við eigum að hafa mannúð og ábyrgð að leiðarljósi í þessum málaflokki.

  • Ofbeldi verður að uppræta. Við megum aldrei líta svo á að ofbeldi sé óhjákvæmilegur fylgifiskur mannlegs samfélags. Það er það ekki. Höfum hátt!

  • Og svo er það stærsta málið og það sem senni­lega þarf mest átak til að laga. Á Íslandi þrífst óásætt­an­leg mis­skipt­ing sem á rót í órétt­látri skipt­ingu auð­linda lands­ins. Stóra verk­efnið er að auka jöfnuð í samfé­lag­inu. Það á ekki að greiða fólki lægri laun fyrir að hugsa um mann­eskj­ur; kenna þeim, hjúkra eða gæta, en að stýra flug­um­ferð eða reikna út burð­ar­þol. Reyndar er afar brýnt að auka jöfnuð á heimsvísu en við getum byrjað hér á landi.

Hér eru pen­ing­arn­ir. Það er nefni­lega nóg til:

  • Hættum að láta ræna okk­ur. Það er glóru­laust að lands­menn allir fái ekki fullt gjald fyrir auð­lind­irnar sínar til nota í sam­eig­in­legum sjóðum okk­ar. Alvöru auð­linda­á­kvæði í stjórn­ar­skrá tekur á þessu. Látum ekki plata okkur til að sam­þykkja eitt­hvert málamynda­á­kvæði sem engu breyt­ir. Þjóðin er búin að sam­þykkja nýja stjórn­ar­skrá í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu. Stjórn­völd í sið­mennt­uðum ríkjum virða þjóðaratkvæðagreiðsl­ur. Í því felst eng­inn póli­tískur ómögu­leiki.

  • Veiði­heim­ildir á að selja hæst­bjóð­anda á frjálsum mark­aði. Þar með geta útgerð­ar­menn ákveðið sjálfir hvaða verð þeir vilja greiða þjóð­inni fyrir að fá að veiða fisk­inn í sjón­um.

  • Við eigum að hætta að gefa landið okk­ar. Þeir sem vilja nýta íslenska raf­orku eiga að greiða fullt gjald fyrir það. Þeir sem selja ferða­mönnum aðgang að nátt­úru lands­ins eiga líka að greiða þjóð­inni fullt gjald fyrir það. Þetta eru tækni­leg úrlausn­ar­efni og í öðrum löndum eru menn fyrir löngu búnir að finna við­eig­andi lausn­ir. Hér getum við ekki einu sinni komið upp kömrum skamm­laust.

  • Ýmsir landar okkar hafa ákveðið að greiða ekki skatta nema að litlu leyti og geyma auð sinn í skatta­skjól­um. Girðum fyrir þá leið og náum í þessa pen­inga. Breiðu bökin eiga að greiða meira til sam­fé­lags­ins en þeir sem minna hafa. Brauð­mola­kenn­ingin hefur verið afsönn­uð. Það ætti að vera óþarfi að taka það fram að var­ast ber að kjósa þá flokka sem flagga for­mönnum og ráð­herrum sem treysta eigin efna­hags­stjórn ekki betur en svo að þeir tryggja sig með því að geyma eigur sínar í útlönd­um. Slíkir lífskjara­þjófar eiga ekki heima í almanna­þjón­ustu.

Þann 28. október verður kosið. Þá getum við ákveðið að laga það sem upp á vantar hjá okkur og gera Ísland eins frábært og það getur orðið. Valið er okkar. Drífum í þessu!

Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×