Enski boltinn

Óstöðvandi eftir að ágúst lauk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane skoraði tvívegis í sigrinum á Liverpool.
Harry Kane skoraði tvívegis í sigrinum á Liverpool. vísir/getty
Ágúst er löngu liðinn og þá blómstrar Harry Kane. Þessi magnaði framherji hefur verið óstöðvandi undanfarnar vikur og það varð engin breyting þar á þegar Tottenham fékk Liverpool í heimsókn á Wembley í gær. Kane skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 4-1 sigri Spurs.

Í síðustu níu leikjum Tottenham í öllum keppnum hefur Kane skorað 13 mörk. Hann hefur einu sinni gert þrennu og fimm sinnum tvö mörk í leik.

Kane mistókst að skora í fyrstu þremur leikjum Tottenham í ensku úrvalsdeildinni en í síðustu fimm leikjum hefur hann gert átta mörk. Enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefur skorað meira á tímabilinu.

Kane vantar aðeins 14 mörk til að komast í 100 marka klúbbinn í ensku úrvalsdeildinni. Og haldi hann svona áfram þarf Alan Shearer að hafa áhyggjur af markametinu sínu (260 mörk).

Stóru málin eftir helgina í enska boltanum

Stærstu úrslitin

Tottenham tók Liverpool í bakaríið á Wembley og vann 4-1 sigur. Spurs sýndi styrk sinn í leiknum og var hættulegt í nánast hvert skipti sem liðið fór fram yfir miðju. Með sigrinum jafnaði Tottenham Manchester United að stigum í 2. sæti deildarinnar.

Hvað kom á óvart?

Huddersfield gerði sér lítið fyrir og vann 2-1 sigur á Manchester Un­ited á heimavelli. Þetta var fyrsta tap United fyrir Huddersfield í 65 ár. Eftir frábæra byrjun á tímabilinu fjaraði aðeins undan nýliðunum. Sigurinn á laugardaginn var langþráður og kom þeim upp í 12. sæti deildarinnar.

Mestu vonbrigðin

Manchester United lék sinn versta leik á tímabilinu þegar liðið laut í lægra haldi fyrir nýliðum Huddersfield, 2-1, á útivelli. Flestir leikmanna United spiluðu illa, þó enginn verr en sænski miðvörðurinn Victor Lindelöf. José Mourinho var afar ósáttur við hugarfar manna sinna og lét þá óánægju í ljós í viðtölum eftir leikinn.


Tengdar fréttir

Blæðandi sár í Bítlaborginni

Liverpool-liðin tvö eru í vandræðum í ensku úrvalsdeildinni. Þau töpuðu bæði stórleikjum í gær. Starf Ronalds Koeman, knattspyrnustjóra Everton, hangir á bláþræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×