Erlent

Með hákarl á hælunum í þrjár klukkustundir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kafarinn er þakklátur fyrir að vera á lífi eftir þrautagönguna.
Kafarinn er þakklátur fyrir að vera á lífi eftir þrautagönguna. John Craig
Breskur kafari sem týndist undan ströndum Ástralíu synti til lands um sjö og hálfs kílómetra leið um helgina. John Craig hafði verið að veiða fisk neðansjávar á föstudag og þegar hann kom upp á yfirborðið sá hann hvergi bátinn, sem vinur hans stýrði.

Skömmu síðar fór hákarl að hnita hringi um hann og þá hóf hann sundið í átt að ströndinni. Hákarlinn elti hann lengi vel án þess þó að fá sér bita en var greinilega afar forvitinn um hvort Bretinn væri ætur.

„Hann var áhugasamur og ofboðslega nálægt, hann synti stöðugt að mér úr mismunandi áttum. Ég reyndi að átta mig á því hvort ég væri á matseðlinum,“ segir Craig í samtali við BBC.

„Þetta var ógnvekjandi. Ég hélt að mér yrði sporðrennt þarna út á miðju ballarhafi. Hákarlinn bara lét mig ekki í friði.“

Hann lýstir því hvernig hann hafi á sundinu reglulega litið til baka og horft beint upp í opinn skoltinn á hákarlinum. Honum hafi liðið eins og ókindin væri að fylgja honum að landi.

Að lokum hafi hákarlinn þó horfið og eftir rúmlega þriggja stunda sund náði Craig landi. Eftir um 30 mínútna göngu um ströndina náði hann loksins athygli flugmanns sem gerði björgunarsveitum viðvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×