Fótbolti

Fleiri mæta á leiki Dagnýjar og félaga en hjá fimmtán NBA-liðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir.
Dagný Brynjarsdóttir. Mynd/Twitter-síða Dagnýjar
Dagný Brynjarsdóttir og félagar hennar í Portland Thorns urðu bandarískir meistarar í fótbolta um þar síðustu helgi eftir sigur á North Carolina Courage í úrslitaleik.

Dagný var flogin til Evrópu fljótlega eftir úrslitaleikinn til að hitta íslenska landsliðið en hún skoraði síðan tvö mörk og gaf eina stoðsendingu í sögulegum 3-2 sigri á Ólympíumeisturum Þýskalands á föstudaginn.

Þetta var því engin venjuleg vika hjá okkar konu. Á sex dögum varð Dagný bandarískur meistari og vann líklega stærsta sigurinn í sögu íslenska kvennalandsliðsins.



Það vita kannski færri af því að Portland Thorns liðið þykir algjört fyrirmyndarfélag varðandi það að byggja upp vinsældir og áhuga á félagi í atvinnumannadeild kvenna.

Það hefur gengið upp og ofan að setja á laggirnar öflugar atvinnumannadeildir kvenna í Bandaríkjunum og forveri atvinnumannadeildarinnar í fótbolta í dag lagði þannig upp laupana. Deildin í ár fór af stað árið 2013.

Þetta hefur hinsvegar gengið frábærlega hjá Portland Thorns sem hefur nú unnið NWSL-deildina tvisvar sinnum á síðustu fimm tímabilum auk þess að vera meðal bestu liðanna öll árin.

Dagný sjálf sagði það eftir sigurinn í úrslitaleiknum að það hefði verið pottþétt fullur völlur hefðu þær fengið að spila titilleikinn á sínum heimavelli í Portland.

Þar fór íslenska landsliðskonan ekki með neinar fleipur því það hefur verið uppselt á 122 heimaleikjum Portland Thorns í röð.





Portland Thorns fékk 17.653 áhorfendur að meðaltali á heimaleiki sína á þessu tímabili en það er meira en fimmtán NBA-lið (körfubolti karla), meira en þrettán NHL-lið (íshokkí karla) og meira en eitt MLB-lið (hafnarbolti karla) geta státað af.

Það sem vekur líka mikla athygli að kynjaskiptin meðal áhorfenda á heimaleikjum Portland Thorns eru 50-50.

Hér má sjá grein þar sem blaðakonan Caitlin Murray á New York Times veltir því fyrir sér hvort Portland Thorns ætti að vera fyrirmyndin af atvinnumannaliðum kvenna í framtíðinni eða hvort að þetta sé eitthvað einsdæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×