Fótbolti

Stelpan sem á möguleika á að vinna fleiri FIFA-verðlaun í kvöld en þeir Messi og Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Deyna Castellanos.
Deyna Castellanos. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, heldur verðlaunahátíð sína í í kvöld en þá fær besta knattspyrnufólk ársins verðlaun sín afhent í Palladium leikhúsinu í London.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart að þeir Cristiano Ronaldo, Lionel Messi og Neymar séu tilnefndir sem bestu knattspyrnumenn heims á þessu ári en tilnefning í kvennaflokknum var óvænt.

Þar er átján ára stelpa frá Venesúela, Deyna Castellanos, tilnefnd sem knattspyrnukona ársins ásamt þeim Lieke Martens frá Hollandi og Carli Lloyd frá Bandaríkjunum. Hollendingurinn Lieke Martens hefur fengið samskonar verðlaun frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, og er sigurstranglegust.

Það bjuggust aftur á móti fáir við að sjá nafn Deynu Castellanos hvað þá sjá hana ganga eftir rauða dreglinum ásamt þeim Cristiano Ronaldo og Lionel Messi sem og að sitja við hlið þeirra í fremstu röð á hátíðinni í kvöld. Hún var lítt þekkt þegar FIFA gaf út fyrstu tilnefningar sínar til verðlauna ársins 2017.





Ólíkt Lionel Messi og Cristiano Ronaldo þá getur Deyna Castellanos unnið fleiri en ein verðlaun í kvöld. Mark hennar kemur nefnilega líka til greina sem besta mark ársins. Hún er þar tilnefnd fyrir mark sem hún skoraði fyrir 17 ára landslið Venesúela á HM U-17.

BBC hefur tekið saman skemmtilega grein um Deynu Castellanos og hana má finna hér

Þar er sagt frá því að það voru ekki allir ánægðir með tilnefningu hennar og sérstaklega þótti nokkrum Áströlum brotið á samlanda sínum Sam Kerr.  Nú síðast gagnrýndi bandaríska landsliðskonan Megan Rapinoe tilnefninguna harðlega sem hún taldi sönnun þess að FIFA hafi engan áhuga á kvennafótbolta.



 

 

Castellanos er ekki orðin atvinnumaður ennþá. Hún er bara átján gömul og stundar nám við Florida State háskólann um leið og hún spilar með knattspyrnuliði skólans þar sem hún hefur skorað 14 mörk í 15 leikjum á þessu tímabili.

Deyna Castellanos er efni í stórstjörnu, létt og skemmtileg í samskiptum við bæði aðdáendur og fjölmiðla, og sannkölluð tilþrifadrottning inn á vellinum þar sem hún hefur skorað mörg frábær mörk á síðastliðnu ári.

Kannski má deila á það að þessi tilnefning hafi komið aðeins of snemma en það efast fáir um það að hún gæti verið fastagestur á topplistanum næstu árum.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×