Fótbolti

Annar reyndi að skalla bjórglasið en hinn drakk úr því | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jozy Altidore fagnar marki með bandaríska landsliðinu.
Jozy Altidore fagnar marki með bandaríska landsliðinu. Vísir/Getty
Tveir leikmenn Toronto FC í bandarísku atvinnumannadeildinni kipptu sér ekki mikið upp við það þótt stuðningsmenn mótherja þeirra brugðust illa við þegar þeir skoruðu mark á nýja Mercedes-Benz leikvanginum í Atlanta.

Þvert á móti fóru þeir óvenjulega leið þegar pirraðir stuðningsmenn ætluðu að henda í þá bjórglasi eftir að Toronto liðið jafnaði metin eftir klukkutíma leik.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Bandaríkjamaðurinn Jozy Altidore og Ítalinn Sebastian Giovinco en þeir voru báðir á skotskónum í leiknum á móti Atlanta United.

Atvikið með bjórglasið varð eftir að Jozy Altidore jafnaði metin í 1-1 á 60. mínútu. Stuðningsmaður Atlanta United reyndi þá að kasta bjórglasi í Altidore sem brást við því með því að reyna að skalla bjórglasið.

Glasið, sem var úr plasti, var nokkuð frá því að ná alla leið til Jozy Altidore en þá kom Sebastian Giovinco aðvífandi, tók upp glasið og tók sopa.

Sopinn hafði greinilega góð áhrif á Sebastian Giovinco því hann skoraði seinna mark Toronto FC 24 mínútum síðar. Það gerði þó ekki meira en að tryggja Toronto liðinu jafntefli því Atlanta United hafði komist aftur yfir í millitíðinni.

Það má sjá markið, fagnið og fljúgandi bjórglasið í myndbandi MLS-deildarinnar hér fyrir neðan.



Jozy Altidore er búinn að skora 16 mörk í 29 leikjum á tímabilinu en Sebastian Giovinco hefur gert enn betur því hann er með 19 mörk í 28 leikjum. Þeir félagar eru því samanlagt með 35 mörk á leiktíðinni sem er frábær tölfræði.  Toronto liðið er líka á toppi deildarinnar og er langmarkahæsta liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×