Innlent

Biðst afsökunar á að hafa notað Sólfarið í óleyfi

Birgir Olgeirsson skrifar
Inga Sæland er formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland er formaður Flokks fólksins. Vísir/Stefán
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur beðist afsökunar á því að hafa notað mynd af listaverki Jóns Gunnars Árnasonar á haustþingi Flokks fólksins.

Haustþingið fór fram í Háskólabíói 30. september síðastliðinn þar sem ljósmynd af sólarlagi við Sundin í Reykjavík var notuð, en Sólfarið var í forgrunni.

Verkið hannaði Jón Gunnar árið 1987 í tilefni af 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði greint frá því að dætur Jóns væru eigendur höfundarréttar Sólfarsins og þær væru verulega óánægðar með notkun Flokks fólksins á því.

Inga Sæland segir í yfirlýsingu vegna málsins að notkunin á ljósmyndinni þar sem Sólfarið birtist, hafi verið í góðri trú.

„Var ljósmyndinni einungis ætlað að sýna fagra haustmynd með tignarlegt útilistaverk í forgrunni. Engin ráðagerð bjó að baki um að brjóta gegn höfundarrétti á listaverkinu. Flokki fólksins er ljúft og skylt að biðjast afsökunar á þeim leiðu mistökum að hafa ekki leitað samþykkis rétthafa höfundarréttar að listaverkinu Sólfar eftir Jón Gunnar Árnason. Sólfarið hefur verið fjölmörgu fólki aðdáunarefni enda ber það vitni um stórbrotinn listamann,“ segir í yfirlýsingunni frá Ingu.

Sólfarið við Sæbraut.Vísir/Hanna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×