Erlent

Vissu að Weinstein væri asni en ekki að hann væri ofbeldismaður

Birgir Olgeirsson skrifar
George Clooney og Matt Damon kynna þessa dagana nýjustu mynd sína Suburbicon.
George Clooney og Matt Damon kynna þessa dagana nýjustu mynd sína Suburbicon. Vísir/Getty

Leikararnir Matt Damon og George Clooney segjast hafa vitað að kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein væri asni, en ekki að hann hefði verið kynferðisofbeldismaður.



„Þú þurftir aðeins að verja fimm mínútum með Harvey Weinstein til að vita að hann væri yfirgangsseggur,“ sagði Matt Damon í bandaríska spjallþættinum Good Morning America.



Þangað var hann mættur ásamt George Clooney til að kynna nýjustu mynd þeirra, Suburbicon en meirihlutinn fór í að ræða Weinstein. Skyldi heldur engan undra því þeir tveir eiga kvikmyndaframleiðandanum margt að þakka, en hann starfaði með þeim að mörgum af þeirra vinsælustu myndum.



„Þetta var orðið sem fór af honum og hann lifði eftir þessum orðum: Getur þú lifað af fund með Harvey?“ sagði Damon.



Harvey Weinstein vann fyrir kvikmyndaverið Miramax um árabil og var hátindur þess fyrirtækis á tíunda áratug síðustu aldar. Matt Damon naut góðs af því en hann sagði í þættinum að Miramax hefði verið staðurinn til að gera frábærar kvikmyndir.



Undanfarnar vikur hefur Weinstein verið sakaður af rúmlega fjörutíu konum um að hafa ýmist áreitt þær kynferðislega, brotið á þeim kynferðislega eða nauðgað þeim. Lögregla í London, New York og Los Angeles rannsakar ásakanir á hendur honum og hefur kvikmyndaakademía Bandaríkja rekið hann úr samtökunum.



„Þegar fólk segir að allir hafi vitað af þessu get ég aðeins sagt að ég vissi að hann væri asni,“ sagði Damon. „Hann var stoltur af því. Þannig hegðaði hann sér. Ég vissi að hann væri kvensamur. Ég hefði ekki viljað vera giftur honum. En það var ekki mitt mál.“



Hann ítrekaði að hann hefði ekki vitað af brotum Weinsteins. Hann viðurkenndi þó að hafa heyrt sögu leikkonunnar Gwyneth Paltrow í gegnum vin sinni Ben Affleck, en að hann hefði aldrei rætt það beint við hana.



Clooney sagði að Weinstein hefði montað sig af þeim konum sem hann hefði haldið við. „Ég trúði honum ekki endilega, í hreinskilni sagt, því hefði ég trúað því væri ég að trúa því versta upp á nokkrar leikkonur sem eru vinkonur mína.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×