Innlent

„Við fengum annað tækifæri í lífinu“

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Frændsystkin á unglingsaldri segjast hafa fengið annað tækifæri í lífinu þegar þau sluppu ómeidd frá hryðjuverkaárás í Manchester í maí. Þau hafa nú sett á fót söfnunarvef fyrir stærsta barnaspítala borgarinnar, en þangað komu fjölmörg fórnarlömb árásarinnar og fengu aðhlynningu.

Ísak Snær Ægisson og Kara Lind Óskarsdóttir voru á meðal þeirra rúmlega 14 þúsund aðdáenda söngkonunnar Ariönu Grande sem staddir voru á tónleikum hennar á Manchester Arena þann 22. maí. Þar létust 22 tónleikagestir þegar sjálfsmorðsárásarmaður sprengdi sig í loft upp við inngang leikvangsins.

Þau Ísak og Kara segjast einfaldlega hafa hlaupið eins hratt og fætur toguðu þegar þau áttuðu sig á því hvernig í pottinn var búið og telja sig afar heppin að hafa sloppið ómeidd. Þau segja áfallið talsvert og þau séu enn óstyrk og vör um sig þegar þau heyra háa hvelli eða óvenjuleg hljóð á almannafæri. 

Þau segjast lengi hafa vilja leggja eitthvað af mörkum og ákváðu því að stofna söfnunarvefinn isakandkara.com þar sem hægt er að styrkja barnaspítalann Royal Manchester Children's Hospital. Þau vonast til þess að safna sem hæstri upphæð sem þau ætla svo að afhenda forsvarsmönnum spítalans persónulega í janúar.

Rætt var við Ísak Snæ og Köru Lind í kvöldfréttum Stöðvar 2, en viðtalið má sjá í spilaranum að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×