Innlent

Langflestir styrktu Sjálfstæðisflokkinn en enginn undir nafni

Bjarki Ármannsson skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Stefán
Fjárframlög einstaklinga til Sjálfstæðisflokksins námu samtals rúmlega 41 milljón króna á árinu og þáði enginn annar flokkur nærri því svo háa upphæð frá einstaklingum. Athygli vekur að enginn einstaklingur gaf flokknum meira en 200 þúsund krónur í senn en allir þeir sem styrkja stjórnmálaflokk um meira en 200 þúsund krónur þurfa að vera nafngreindir í ársreikningi.

Þetta kemur fram í útdrætti úr ársreikningi flokksins, en útdrættir úr ársreikningum allra stjórnmálaflokka sem sátu á síðasta þingi voru birtir á vef Ríkisendurskoðunar í dag.

Enginn flokkur sem náði manni inn á þing í síðustu þingkosningum þáði nærri því jafnháa upphæð í styrki frá einstaklingum og Sjálfstæðisflokkurinn en næst á eftir honum koma Samfylkingin með tæplega þrettán milljónir króna, Vinstri græn með tæplega tólf milljónir og Framsóknarflokkurinn með rúmlega ellefu milljónir.

Þó eru nokkrir einstaklingar nafngreindir í ársreikningum allra þessara flokka sem gáfu meira en 200 þúsund krónur. Nefna má til dæmis Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra, sem styrkti Framsóknarflokkinn um rúmlega 300 þúsund krónur, og Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem styrkti sinn flokk um rúmlega 240 þúsund krónur.

Fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn eru aðeins tveir flokkar sem nú sitja á þingi sem þáðu ekki styrk frá neinum einstaklingi yfir 200 þúsund krónur, Píratar og Björt framtíð. Píratar þáðu samtals rúmlega 8,3 milljónir króna og Björt framtíð rúmlega eina og hálfa.

Þess má geta að enginn einstaklingur er heldur nafngreindur í ársreikningi Sjálfstæðisflokksins í fyrra og aðeins einn einstaklingur síðastliðin fimm ár. Það er Jón Zimsen, sem styrkti flokkinn um 300 þúsund krónur árin 2014, 2013 og 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×