Viðskipti innlent

Gáfu hámarksupphæð til fimm stjórnmálaflokka

Bjarki Ármannsson skrifar
HB Grandi styrkti alla flokka á þingi um hæstu leyfilegu upphæð nema Bjarta framtíð, sem ekki tók við styrkjum, og Pírata.
HB Grandi styrkti alla flokka á þingi um hæstu leyfilegu upphæð nema Bjarta framtíð, sem ekki tók við styrkjum, og Pírata. Vísir/Eyþór
Nokkur íslensk fyrirtæki styrktu flesta þá stjórnmálaflokka sem nú sitja á þingi í fyrra, samkvæmt útdráttum úr ársreikningum flokkanna sem birtir voru á vef Ríkisendurskoðunar í dag.

Björt framtíð er eini flokkurinn sem hefur það sem yfirlýsta stefnu að taka ekki við styrkjum frá lögaðilum og samkvæmt ársreikningunum var hann eini flokkurinn á þingi sem ekki hlaut neina slíka styrki í fyrra.

Ef frá er talin Björt framtíð, styrkti Atlantsolía alla flokka á þingi um sömu upphæð, 200 þúsund krónur.

Þá vekur athygli að fjögur fyrirtæki styrktu alla flokka á þingi nema Bjarta framtíð og Pírata sem taka ekki við neinum styrkjum frá lögaðilum yfir 200 þúsund krónur.

Tvö stórfyrirtæki í sjávarútvegi, Brim og HB Grandi, styrktu alla hina flokkana fimm; Sjálfstæðisflokk, Vinstri græn, Framsókn, Samfylkinguna og Viðreisn, um hæstu mögulegu upphæð, 400 þúsund krónur. Þá styrkti Icelandair þessa sömu fimm flokka um 200 þúsund krónur hvorn og Borgun um 250 þúsund krónur.

Uppfært:

Í fyrri útgáfu fréttar var ekki tekið fram að Píratar þáðu ekki styrku að fjárhæð yfir 200 þúsund krónur frá lögaðilum á síðasta ári. Þá hefur fyrirsögn fréttarinnar einnig verið leiðrétt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×