Viðskipti innlent

Medis verðlaunað í Frankfurt

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsfólk Medis tók á móti verðlaununum við athöfn í Frankfurt í Þýskalandi sem fór fram í tengslum við stærstu lyfjaráðstefnu heims, CPh.
Starfsfólk Medis tók á móti verðlaununum við athöfn í Frankfurt í Þýskalandi sem fór fram í tengslum við stærstu lyfjaráðstefnu heims, CPh. medis
Lyfjafyrirtækið Medis hlaut í gærkvöldi verðlaun sem lyfjafyrirtæki ársins á EMEA-svæðinu svokallaða á vettvangi sem ber heitið Global Generics & Biosimilars Awards.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Medis. „Fyrirtækið hafði fyrr í haust verið tilnefnt í flokkunum Lyfjafyrirtæki ársins sem og Lyfjafyrirtæki ársins á EMEA-svæðinu (fyrirtæki með höfuðstöðvar í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku).

Starfsfólk Medis tók á móti verðlaununum við athöfn í Frankfurt í Þýskalandi sem fór fram í tengslum við stærstu lyfjaráðstefnu heims, CPhI (Convention on Pharmaceutical Ingredients), sem fer fram þar í borg um þessar mundir. Verðlaunin eru veitt árlega af lyfjatímaritinu Generics Bulletin og samstarfsaðilum þess í tengslum við þessa stóru sýningu. Flest lyfjafyrirtæki heims, ásamt þjónustu- og framleiðslufyrirtækjum sem tengjast iðnaðinum, taka þátt í ráðstefnunni sem telur ríflega 42.000 gesti í ár og 2.400 sýnendur frá 153 löndum.

Alls voru afhent verðlaun í fjórtán flokkum þetta kvöld fyrir framúrskarandi árangur á sviði lyfjaiðnaðarins á árinu, þar sem dómnefnd skipuð sérfræðingum metur þætti eins og afkomu, stjórnunarhætti, aðgerðir á markaði, markaðssetningu á vörum, skráningu, einkaleyfi og ýmsa fleiri þætti í starfsemi fyrirtækjanna sem voru tilnefnd á ári sem hefur almennt verið krefjandi fyrir lyfjafyrirtæki um allan heim.

Medis var áður hluti af Actavis en er nú að fullu í eigu Teva Pharmaceutical Industries Ltd (NYSE og TASE: TEVA) sem keypti samheitalyfjahluta Actavis, Actavis Genercis, ásamt Medis á síðasta ári. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Hafnarfirði og alls vinna um 120 manns hjá Medis í átta löndum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×