Innlent

Hulduhópar dæla út áróðri á samfélagsmiðlum

Kjartan Kjartansson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Nokkur skjáskot af þeim síðum á Facebook sem Vísir hafði samband við.
Nokkur skjáskot af þeim síðum á Facebook sem Vísir hafði samband við.
Fjöldi nafnlausra kosningaáróðurssíðna hafa sprottið upp fyrir þingkosningarnar nú. Vísir hafði samband við nokkrar af þessum síðum en fyrir utan eina vildi enginn þeirra koma fram undir nafni.

Andrés Jónsson, almannatengill, telur að hundruð þúsunda króna hafi verið varið í að deila efni einnar umfangsmestu síðunnar sem hann telur hluta af skuggabaráttu á vegum stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

Síður með nöfnum eins og „Kosningar 2017“, „Kosningavaktin“, „Kjósa“ og „Jæja“ hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum í aðdraganda þingkosninganna nú. Sumar þeirra voru einnig virkar fyrir kosningarnar í fyrra, og jafnvel enn fyrr, en þær eiga það sameiginlegt að enginn ábyrgðarmaður er gefinn upp. Efnið sem þær dreifa á Facebook og Youtube er yfirleitt harkaleg gagnrýni á stjórnmálamenn og flokka sem eru í framboði.

Þeir sem svöruðu fyrir hönd sumra þeirra síða sem Vísir hafði samband við sögðust engin tengsl hafa við stjórnmálaflokka og þvertóku fyrir að vera áróðurssíður. Aðrir svöruðu litlu sem engu.

Hafnar því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nokkuð að gera með áróðurssíður

Ein mest áberandi síðan er „Kosningar 2017“. Sú síða var einnig virk fyrir síðustu kosningar og gekk þá undir heitinu „Kosningar 2016“. Aðstandendur hennar dreifa myndböndum sem virðast hafa verið sérstaklega unnin, meðal annars með keyptum auglýsingum á Youtube og Facebook. Síðan beinir spjótum sínum fyrst og fremst að vinstriflokkunum.

Andrés telur erfitt að segja til nákvæmlega hversu mikið síðuhaldarar hafi eytt í auglýstar færslur en miðað við umfang keyptra auglýsinga Kosninga 2017 hlaupi kostnaðurinn við þær á hundruð þúsundum króna að minnsta kosti. Sé vinnan við myndbandavinnsluna einnig keypt en ekki unnin í sjálfboðavinnu geti kostnaðurinn numið milljónum sé miðað við hefðbundnar auglýsingaherferðir af sambærilegri stærðargráðu.

„Ég hef ekki staðfestar upplýsingar um hverjir standa að baki en það er augljóst að þetta er skuggabarátta á vegum stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Það sést bara  á því hverjir deila og læka og líka á því hverjir eru skotmörkin,“ segir hann.

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hafnar því hins vegar alfarið að flokkurinn hafi nokkuð að gera með áróðussíður af þessu tagi.

„Það er algjörlega á kristaltæru að þetta tengist Sjálfstæðisflokknum ekki nokkurn skapaðan hlut og við höfum enga vitneskju um hverjir standa þarna að baki þessu,“ segir Þórður.

 

Þegar Vísir óskaði eftir viðtali við aðstandendur Kosninga 2017 í gegnum Facebook-síðu þeirra sagði sá sem svaraði aðeins að þeir væru hvorki þjóðþekktir né auðmenn.

„Fréttin í þessu yrði alger ekki frétt því við erum ekki þjóðþekktir né auðmenn. Kjósum að hanga á nafnleyndinni þar til annað breytist,“ var eina svar síðunnar.

Spurningum um hversu miklu fé aðstandendur síðunnar hefðu eytt í keyptar auglýsingar á samfélagsmiðlum og hvernig þær væru fjármagnaðar var ekki svarað.

Aðstandendur síðunnar vildu heldur engin svör veita þegar Mbl.is leitaði eftir því í fyrra. Báru þeir þá fyrir sig að þeim væri ekki óhætt að koma fram undir nafni í ljósi viðbragða „vinstrisinnaðra lesenda“. Fullyrtu þeir að um væri að ræða „afskaplega smáan hóp áhugamanna um að afhjúpa lýðskrum í stjórnmálum“  sem væri „alls ekki“  á vegum neins stjórnmálaflokks.



Trúa því að þau hafi bætt umræðuna

Aðstandendur tveggja annarra nafnlausra Facebook-síða sem halda uppi hörðum áróðri gegn Sjálfstæðisflokknum og Bjarna Benediktssyni sérstaklega, „Kosningavaktin“ og „Kjósa“ vildu hvorugir gefa upp hverjir þeir væru en neituðu að þeir tengdust nokkrum flokkum.

Sá sem svaraði einkaskilaboðum á Facebook-síðunni Kosningavaktin sagði að hópurinn veitti ekki viðtöl en að hann tæki við spurningum blaðamanns þar. Síðan var stofnuð í fyrir um tveimur vikum viku af hópi „áhugafólks um upplýsta umræðu“. Þar hafa einnig birst myndbönd sem mikið hefur verið lagt í.

Síðan hefði verið stofnuð til að „miðla mikilvægum upplýsingum til kjósenda í aðdraganda kosninga og standa vakt um staðreyndir sem fjölmiðlar fjalla ekki um með fullnægjandi hætti“. Hún hafi greitt fyrir auglýsingar á samfélagsmiðlum og síðan sé fjármögnuð með „smáum fjárframlögum velunnara“. Ekki fengust svör við því hversu miklu hefði verið eytt í auglýsingar á samfélagsmiðlum.

Spurð að því hvort að nafnlausar færslur af þessu tagi bæti stjórnmálaumræðuna á Íslandi telja aðstandendur Kosningavaktarinnar að svo sé en gagnrýna í sömu andrá „nafnlausar áróðurssíður“.

„Kosningavaktin hefur bætt stjórnmálaumræðu á Íslandi með því að miðla mikilvægum upplýsingum til kjósenda og standa vakt um staðreyndir sem fjölmiðlar fjalla ekki um með fullnægjandi hætti. Öðru máli gegnir um nafnlausar áróðurssíður sem bera á borð ósannindi og rógburð en því miður hefur kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins einkennst af slíkum óhróðri og má fullyrða að þar sé kostað til milljónum króna,“ var svar þeirra.

Síðuhaldarar þvertaka fyrir að þeir geti sjálfir talist halda úti nafnlausri áróðurssíðu. Nafnleysið skýrist af ótta hópsins við „ofsóknir“ af hálfu valdafólks, stjórnmálaflokka og áróðursvéla.

„Það er ljóst að mörgum stendur stuggur af þess konar starfsemi og í sumum tilfellum getur það átt við um valdafólk og jafnvel heilu stjórnmálaflokkana. Síðan er nafnlaus til að tryggja að aðstandendur síðunnar verði ekki fyrir ofsóknum af hálfu slíkra afla og áróðursvéla sem haldið er úti á þeirra vegum. Því miður verður ekki hjá því komist,“ segir í svari Kosningavaktarinnar.

Telur síðurnar meinsemd á stjórnmálaumræðunni

Svör einstaklingsins sem segist standa einn að baki „Kjósa“ eru meira afsakandi en „Kosningavaktarinnar“. Hann viðurkennir að hafa eytt um tíu þúsund krónum í heildina úr eigin vasa í að auglýsa færslur á samfélagsmiðlum í takmörkuðu magni. Hann sé hvorki flokksbundinn né hafi hann gert upp hug sinn um hvað hann ætli að kjósa í kosningunum í næstu viku.

Síðan var stofnuð fyrir einni til tveimur vikum en aðstandandinn telur sjálfur að nafnlausar síður séu „algjör meinsemd á stjórnmálaumræðunni á Íslandi“.

„En ég gat ekki lengur setið á mér yfir öllum hægri öfgasíðunum sem flæða yfir allt með mjög vafasaman hræðsluáróður, sem virðist virka því miður. Því fann ég mig knúinn til þess að svara þeim, þó það sé mér þvert á geð.  Mér finnst að allir stjórnmálamenn ættu að fordæma harðlega síður sem þessar. En það virðist vera sem svo að stjórnmálamenn styðji svona kosningabaráttu og láti hana viðgangast, enda skilar hún þeim atkvæðum,“ segir hann.

Sara Oskarsson er formaður Jæja-hópsins en hún er einnig í framboði fyrir Pírata fyrir kosningarnar nú.
Formaður Jæja-hópsins í framboði fyrir Pírata

Sara Oskarsson er formaður Jæja-hópsins sem heldur úti Facebook-síðunni Jæja. Hún er jafnframt frambjóðandi Pírata fyrir þingkosningarnar nú og skipar 4. sætið á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Efni sem hefur verið deilt á Jæja fyrir kosningarnar nú snýr mikið að nýju stjórnarskránni og svo lögbanni sýslumanns á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum úr Glitni sem sett var á í liðinni viku.

Í samtali við Vísi segir Sara enga samvinnu vera á milli Pírata og Jæja enda hafi Jæja verið stofnað áður en hún gekk til liðs við Pírata. Sara kveðst engu að síður meðvituð um það að hún þurfi að gæta hlutleysis á síðu Jæja á Facebook.

„Auðvitað hefur þetta verið svolítið erfitt núna, sérstaklega vegna þess að ég er formaður Jæja og er í framboði sjálf fyrir Pírata. Þannig að ég er náttúrulega mjög meðvituð um að reyna að vera óhlutdræg en það er kannski svolítið erfitt og ég geri mér alveg grein fyrir því,“ segir Sara.

„Jæja var stofnað áður en ég gekk til liðs við Pírata þannig að fyrir mér er það minn fyrsti vettvangur. Það hafa aldrei nokkurn tímann verið nein bein samvinna á milli flokksins eða Jæja. Ég er Pírati en svo hefur fólk eiginlega úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokksins verið starfandi innan Jæja og er ennþá. Þannig að þetta er ekkert vettvangur Pírata frekar en Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna þannig séð. En ég geri mér alveg grein fyrir því að ég er ekkert alveg hlutlaus,“ segir Sara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×