Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Keflavík 87-90 | Suðurnesjamenn sóttu stigin

Anton Ingi Leifsson skrifar
vísir/anton
Keflavík vann góðan sigur á Haukum á Ásvöllum í kvöld í fjórðu umferð Dominos-deildar karla. Leikurinn var mjög spennandi og mikil skemmtun. Lokatölur 90-87, Keflavík í vil.

Haukarnir byrjuðu betur og voru níu stigum eftir fyrsta leikhlutann, 29-20, en Kári Jónsson lék á alls oddi og setti þrjár þriggja stiga körfur. Í öðrum leikhluta rönkuðu gestirnir betur við sér og spiluðu betri leik.

Cameron Forte var frábær hjá Keflavík, en Haukarnir réðu ekkert við hann undir körfunni. Hann og Reggie Dupree voru lykillinn að því að Keflavík leiddi 44-40 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Cameron þó kominn í villuvandræði; með fjórar villur í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik voru Keflvikingar sterkari framan af, en góður kafli heimamanna undir lokin gerði það að verkum að þegar þriðja leikhluta lauk leiddu þeir með einu stigi, 68-67.

Fjórði leikhluti var æsispennandi en að endingu reyndust gestirnir frá Keflavík sterkari, 90-87. Góður sigur þeirra og þeir komnir með sex stig, en skilja Haukana eftir með fjögur.

Haukar-Keflavík 87-90 (29-20, 11-24, 28-23, 19-23)

Haukar: Kári Jónsson 28/7 fráköst, Hjálmar Stefánsson 14, Paul Anthony Jones III 12/10 fráköst, Breki Gylfason 11, Emil Barja 10/4 fráköst, Finnur Atli Magnússon 6/9 fráköst, Kristján Leifur Sverrisson 4/5 fráköst, Haukur Óskarsson 2.

Keflavík: Reggie Dupree 29/6 fráköst, Cameron Forte 24/7 fráköst, Guðmundur Jónsson 10, Ragnar Örn Bragason 9, Magnús Már Traustason 6/5 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 5, Daði Lár Jónsson 5, Ágúst Orrason 2/4 fráköst.

Afhverju vann Keflavík?

Þeir virtust sterkari þegar mest á reyndi. Haukarnir komu með kafla og kafla, en kúlinu héldu Suðurnesjamenn þrátt fyrir að Cameron Forte hafi einungis spilað 24 mínútur tæpar. Margir voru að leggja lóð á skálarnar hjá Keflavík. Þeir voru ekki að spila fallegasta körfuboltann, en orkan var mikil og vinnusemi er dyggð sagði maðurinn. Þeir uppskáru eftir því í kvöld.

Hvað gekk illa?

Haukunum gekk illa að halda sama flæðinu í leik liðsins til lengri tíma. Þeir komu með kafla og kafla, en hefðu þurft betur að halda á spilunum til þess að vinna Keflavík í kvöld. Á köflum ætluðu menn einnig að gera þetta of mikið einir.

Paul Anthony Jones III gekk einnig illa að koma sér í takt við leikinn í kvöld, en hann skoraði að endingu bara 12 stig og þar af þrist þegar sekúnda var eftir af leiknum. Hann ku hafa verið veikur í vikunni og það hafi aftrað honum.

Bestu menn vallarins

Cameron Forte (Keflavik) og Kári Jónsson (Haukar) voru í sérflokki í fyrri hálflek. Þeir gjörsamlega drógu sín lið áfram og Cameron var kominn með 22 stig strax í hálfleik og Kári 21. Cameron var hins vegar kominn með fjórar villur svo það aftraði honum í þeim síðari.

Kári hélt svipuðum hætti og endaði með 28 stig, en Keflvíkingar höfðu betri gætur á honum í síðari hálfleik. Reggie Dupree tók við keflinu af Forte frá því í fyrri hálfleik, en hann endaði með 29 stig. Geggjaður leikur hjá honum.

Einnig verður að nefna Guðmund Jónsson, en hann átti sinn þátt í því að Paul náði sér aldrei á strik. Hann lokaði algjörlega á hann og skilaði svo tíu stigum í viðbót. Slökkviliðsmaðurinn með fimmtán framlagspunkta.  

Tölfræðin sem vakti athygli

Eins og áður segir gekk Paul Anthony illa í kvöld, en Haukarnir voru mínus 13 með hann inni á vellinum. Einnig hefur Emil Barja oft spilað betur og voru Haukarnir einnig mínus 13 þegar Emil var inná. Keflvíkingar voru hins vegar á eldi þegar Magnús Már Traustason spilaði, en hann endaði +18. Svakalega góður varnarmaður og skilar sínu sóknarlega.

Friðrik Ingi: Erum ekki á þeim stað sem við viljum vera á

„Þetta var mikill dramaleikur. Liðin voru að skiptast á góða kafla á víxl, en það sem ég var ánægðastur með var að þótt að við misstum kúlið aðeins þá vorum við alltaf með fyrir framan okkur að missa ekki sjónar af markmiðinu sem var að spila til enda og að gera betur.”

Þetta voru fyrstu orð Friðriks Inga Rúnarssonar, þjálfara Keflavíkur, sem var glaður í leikslok eftir góðan sigur lærisveina hans.

„Mér fannst við gera það býsna vel og ég veit að við getum spilað betri körfubolta. Við spiluðum með góðu hjarta og það er alltaf mjög jákvætt. Það voru leikmenn sem voru ekki mikið að skora, en voru að gera litla hluti.”

„Sóknarfrákastið til að mynda sem Ágúst Orrason tók á ákveðnum kafla í leiknum, en svona hlutir skipta gífurlega miklu máli. Mikil orka sem kemur í því, en eins og ég segi; við getum spilað betri körfubolta og fleiri leikmenn hafa átt betri daga sóknarlega.”

„Þá er hins vegar frábært að vita til þess að það er hægt að vinna á svona erfiðum útivelli gegn vel þjálfuðu og flottu liði eins og Haukarnir eru það er mjög sterkt.”

Cameron Forte var frábær í fyrri hálfleik og Haukarnir réðu ekkert við hann. Hann nældi sér hins vegar í fjórðu villuna um miðjan annan leikhluta og sat því á bekknum allan þriðja leikhlutann.

„Hann missti kúlið aðeins og það hefði getað reynst okkur dýrt, en sem betur fer fundum við leiðir og Þröstur kom í hans stað varðandi það að passa teiginn. Aðrir leikmenn stigu upp.”

„Ég er mjög ánægður með varnarleikinn einnig hjá Guðmundi. Hann var mjög góður og hélt Paul Jones, sem er mjög góður leikmaður að mínu mati, niðri og tók hann úr rhytma.”

Þrír sigrar í fyrstu fjóru leikjunum hjá Keflavík og liðið virðist til alls líklegt.

„Þetta mót er þannig að það er ekkert gefið. Ef lið mæta ekki til leiks með krafti og með viljann að vopni þá lenda menn í vandræðum. Deildin er jöfn og mörg lið sem eru á svipuðum stað.”

„Þetta snýst um að gera sig gildandi og vissulega er ágætt að vera búnir að ná þremur sigrum úr fyrstu fjórum leikjunum. Við erum enn með skýr markmið og við erum ekkert á þeim stað sem við viljum vera enda skammt á veg komið. Við erum í ákveðnu ferli og þurfum að vinna vel áfram. Hver leikur er orrusta,” voru lokaorð Friðriks.

Ívar: Tek þetta tap á mig

„Þeir hittu betur en við og það var meiri stemning hjá þeim heldur en okkur,” sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, í samtali við Vísi í leikslok.

„Mér fannst við byrja ágætlega, en í öðrum leikhluta datt botninn úr þessu hjá okkur og við vorum skelfilega slakir í öðrum leikhlutanum. Þeir fá sjálfstraust við það.”

„Þegar útlendingurinn þeirra, sem var búinn að vera frábær, fékk fjórðu villuna þá æstust þeir enn meira og við hittum illa. Það vantaði smá meira boltaflæði.”

„Fullt af hlutum sem við getum gert betur og munum gera betur,” en fannst Ívari leikur Hauka kaflaskiptur eða bara yfirhöfuð flatur leikur?

„Flæðið var ekki gott. Kári hitti vel í byrjun og eftir það þá vantaði hreyfingu. Við töluðum um það í hálfleik og að dribbla ekki eins mikið og við vorum að gera. Við vorum að spila small ball-team bolta.”

„Við erum ekki vanir að spila þannig og það er örugglega bara mér að kenna að við höfum ekki byrjað bara eins og við höfum verið að gera og verið betri. Ég tek þetta tap á mig.”

Kári spilaði afar vel, en Paul Anthony Jones þriðji náði sér alls ekki á strik. Ívar segir að hann viti það manna best sjálfur og hafi viðurkennt það eftir leik.

„Hann var slakker og hann veit það sjálfur. Það var fyrsta sem hann sagði eftir leikinn að hann baðst afsökunar. Þetta er hörkuleikmaður og menn eiga slaka leiki. Hann verður betri í næstu leikjum.”

„Hann var að ströggla, búinn að vera hálf veikur og náði sér aldrei á strik eftir að hafa beðið um skiptingu snemma. Hann var ekki sá eini sem var slakur í kvöld, en mér fannst menn leggja sig fram og berjast,” sem hrósaði Hjálmari Stefánssyni í hástert:

„Hjálmar á hrós skilið. Hann var mjög góður og þetta var hans besti leikur á tímabilinu. Hann var mjög góður í þessum leik og það var gaman að sjá hann.”



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira