Skoðun

Opið bréf til forystumanna stjórnmálaflokkanna

Vésteinn Valgarðsson skrifar
Kæru forystumenn,

þessa kosningabaráttu bar brátt að. Það vita líklega allir að fyrir flokk eins og Alþýðufylkinguna er framboð meiriháttar átak, því meira sem fyrirvarinn er styttri. Okkur tókst samt að bjóða fram í fjórum kjördæmum og höfum undanfarið mætt ykkur, talsmönnum hinna flokkanna, úti á vellinum. Við vitum að þið virðið það við okkur, að við erum alltaf málefnaleg í okkar málflutningi.

Við höfum mæst víða, en að minnsta kosti jafnvíða höfum við ekki mæst. Eins og þið hafið örugglega orðið vör við, hefur okkur vantað á margan fundinn og stundum í fjölmiðla, þar sem annars vantar ekki aðra en okkur, og Dögun. Þetta er ekki vegna þess að okkur skorti vilja eða getu til að taka þátt. Við höfum alls boðað forföll á 2-3 fundi sem okkur hefur verið boðið á, en á hina fundina höfum við ekki mætt vegna þess að okkur hefur ekki verið boðið.

Viðkvæði fjölmiðla og félagasamtaka hefur oftast verið að þau bjóði flokkum sem eru með framboð í öllum kjördæmum. Að draga línuna þar, og skilja þar með einn eða tvo flokk útundan, er lélegt. Og það er óþarfi, nema fólk óttist okkar málflutning.

Af fjölmiðlum sker RÚV sig úr vegna lagaskyldu um umfjöllun um kosningar, þar sem gæta ber jafnræðisreglu, meðalhófs og fleiri góðra siða. Jafnvel þar hefur Alþýðufylkingunni þó verið mismunað. Til dæmis hafa okkar talsmenn verið klipptir grimmt niður í málefnaþáttum, jafnvel í miðri setningu. Nú í kvöld, föstudagskvöld, verður seinni leiðtogaumræða í sjónvarpi. Þar stendur til að skilja Þorvald Þorvaldsson, formann Alþýðufylkingarinnar, útundan. Við höfum mótmælt en RÚV situr fast við sinn keip. Við höfum krafist skýringa, en svörin eru að þetta hafi bara verið ákveðið.

Einu rökin, ef rök skyldi kalla, eru að ÖSE hafi gert athugasemdir við að of mörg framboð saman í þætti geri umræðuna of grunna. Það er útúrsnúningur að telja það mæla með að hafa níu flokka saman í þætti en skilja tvo bara útundan! Þetta er sérlega alvarlegt í ljósi þess að margir munu móta sér þá skoðun í kvöld, sem ræður hegðun þeirra í kjörklefanum á morgun. Seinni leiðtogaumræðurnar á RÚV eru því mikilvægasti hlutinn af kosningaumfjölluninni og þeim mun alvarlegra að gera Alþýðufylkinguna ósýnilega.

Við erum ekki að fara fram á neina sérmeðferð. Við viljum koma fram á jafnréttisgrundvelli og viljum ekki sæta ómálefnalegum hömlum á boðskap okkar. Það er augljóst að vegna lýðræðisins í landinu verða kjósendur að fá að kynna sér málstað þeirra sem bjóða fram.

Við trúum á okkar málstað. Við trúum að okkur gangi best þegar leikreglurnar eru sanngjarnar og tækifærin jöfn. Þið hljótið líka að líta þannig á ykkar málstað. Þess vegna biðjum við ykkur: Gerið athugasemdir við að Alþýðufylkingunni sé ekki boðið að vera með. Sendið RÚV tölvupóst. Tjáið ykkur á Facebook. Nefnið það í þættinum í kvöld að þið hefðuð viljað að við værum líka með. Eða, ef þið þorið því, neitið að taka þátt í útskúfun okkar.

Höfundur er varaformaður Alþýðufylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×