Viðskipti innlent

Guide to Iceland kaupir Bungalo

Samúel Karl Ólason skrifar
Xiaochen Tian, framkvæmdastýra Guide to Iceland, og Guðmundur Lúther Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Bungalo, fyrir utan höfuðstöðvar Guide to Iceland í Borgatúni 29.
Xiaochen Tian, framkvæmdastýra Guide to Iceland, og Guðmundur Lúther Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Bungalo, fyrir utan höfuðstöðvar Guide to Iceland í Borgatúni 29.
Fyrirtækið Guide to Iceland hefur keypt allt hlutafé fyrirtækisins Bungalo ehf. Starfsemi Bungalo hefur nú alfarið flust til höfuðstöðva Guide to Iceland í Borgartúni 29, en Bungalo mun þó áfram verða rekið sem sjálfstætt félag, samkvæmt tilkynningu. Viðræður milli fyrirtækjanna stóðu yfir um nokkurra mánaða skeið en samkomulag um kaupin náðist nýverið.

Bungalo heldur úti vefsíðunni Bungalo.com sem er sérhæft markaðstorg fyrir útleigu íslenskra sumarbústaða. Guide to Iceland starfrækir markaðstorgið Guidetoiceland.is þar sem íslenskum ferðaþjónustuaðilum gefst kostur á að koma vörum sínum og þjónustu á framfæri við umheiminn.

„Við hjá Bungalo erum afar ánægð með að hafa náð samkomulagi við Guide to Iceland sem hefur vaxið hratt síðustu ár. Guide to Iceland hefur mjög færa stjórnendur og starfsmenn innanborðs og ég er því sannfærður um að þessar breytingar muni stuðla að áframhaldandi vexti Bungalo,“ segir Guðmundur Lúther Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Bungalo, í tilkynningunni en hann mun áfram gegna þeirri stöðu undir nýju eignarhaldi.

Xiaochen Tian, framkvæmdastýra Guide to Iceland, segist ánægð með kaupsamninginn og að hún hlakki til að styrkja Bungalo enn frekar innan Guide to Iceland samsteypunnar.

„Við munum geta nýtt einstakt sumarhúsaúrval Bungalo til að bjóða viðskiptavinum Guide to Iceland hagkvæma og einstaka upplifun á Íslandi,“ segir hún. „Á sama tíma hefur skapast tækifæri til að bjóða sumarhúsaeigendum enn betri kjör og aukna möguleika til útleigu. Það eru því spennandi tímar framundan hjá báðum félögum, ásamt öllum þeim sem hyggjast nýta þessa þjónustu sér til hæginda, tekjuöflunar og yndisauka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×