Innlent

Tala við gerendur um heimilisofbeldi

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Sissel Meling segir afar áhrifaríkt að eiga samtal við gerendur og þolendur og upplýsa þá um hættu vegna heimilisofbeldis.
Sissel Meling segir afar áhrifaríkt að eiga samtal við gerendur og þolendur og upplýsa þá um hættu vegna heimilisofbeldis. Vísir/Ernir
Lögreglumál „Samtal við gerendur og þolendur er mikilvægt, það má ekki þegja um hættuna vegna heimilisofbeldis,“ segir Sissel Meling, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Noregi á ráðstefnu Jafnréttisstofu um þverfaglega samvinnu í heimilisofbeldismálum sem haldin var á Þjóðminjasafninu í síðustu viku. Sissel deildi reynslu norsku lögreglunnar af kanadískri aðferð sem er skammstöfuð SARA, við mat á hættu vegna heimilisofbeldis. Rætt er við bæði geranda og þolanda og hættan metin á því hvort sá sem beitt hefur maka sinn ofbeldi geri það aftur. Verklagið er tekið til fyrirmyndar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í breyttu verklagi gegn heimilis­ofbeldi. „Við eigum oftast eitt hvetjandi samtal við bæði geranda og þolanda. Við hvetjum gerendur til að sækja sér aðstoð og ræðum hvað þarf að breytast í hegðun og lífi geranda til þess að hann beiti ekki ofbeldi,“ segir Sissel og segir samtalið áhrifaríkt.

„Þetta samtal dugir oftast þótt við glímum enn við ný tilfelli og þau erfiðari sem fela í sér ítrekuð brot á nálgunarbanni. Lífshættulegt heimilisofbeldi er hins vegar á undanhaldi, þótt það sé auðvitað erfitt að halda slíku fram,“ segir Sissel og segir markmiðið með samtölum lögreglu að koma í veg fyrir heimilisofbeldi og morð.

„Þolandi gæti viljað hitta okkur oftar en einu sinni og það er velkomið. Mín reynsla er sú að þær konur sem eru í þessum erfiðu aðstæðum þurfa meiri tengingu við raunveruleikann. Þær hafa fjarlægst hann til að þola betur aðstæður sínar. Það er þeim lífsnauðsynlegt að vakna til vitundar og lögreglan gagnast vel í því að ræða við þolendur um aðstæður þeirra. Við höfum reynsluna, við höfum séð það margsinnis hvernig heimilisofbeldi stigmagnast.

Ég get nefnt dæmi um konu sem við ræddum við. Hnífi var haldið við háls hennar, maki hennar gerði tilraun til að kyrkja hana. Hún fór á sjálfsvarnarnámskeið sér til styrkingar. Við spurðum hana hins vegar hvernig hún myndi verjast því að hann reyndi að skjóta hana og greindum henni frá alvarleika málsins,“ segir Sissel. „Þetta er á ábyrgðarsviði lögreglunnar. Læknir gæti sinnt þessu hlutverki líka, en við getum það enn frekar því við sjáum glöggt hvernig heimilisofbeldi getur stigmagnast þar til þolandinn er jafnvel myrtur,“ segir Sissel og nefnir að auki að lykill að árangri sé að bæði þolandi og gerandi séu samþykkir eftirfylgni lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×