Innlent

Björt gefur lítið fyrir ásakanir Jóns

Jakob Bjarnar skrifar
Björt er helst á því að ummæli Jóns dæmi sig sjálf.
Björt er helst á því að ummæli Jóns dæmi sig sjálf.
Eins og Vísir hefur greint frá hefur Jón Gnarr sent frá sér harðorða ádeilu á Bjarta framtíð, sem hann segir þjakaða af alvarlegum innanmeinum. Hann beinir einkum spjótum sínum af Björt Ólafdóttur umhverfisráðherra og svo Guðlaugu Kristjánsdóttur, forseta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar en þær í sameiningu stóðu að sjoppulegasti aðför sem Jón hefur mátt sæta, að mati Jóns sjálfs.

Segir Jón leggja sér orð í munn

„Ég veit ekki alveg hvað hann Jón á við. Eins og fram kom óskaði ég honum velfarnaðar, honum og Samfylkingunni, og reyndar tók ég svo stórt uppí mig að við gerðum það öll í Bjartri framtíð,“ segir Björt í samtali við Vísi.

Björt er þar að vísa til þess þar sem Jón fer yfir meintar launakröfur sínar til Bjartrar framtíðar, sem hann segir aldrei hafa neinar verið.

„Hann er leggur mér þarna orð í munn, ég veit ekki alveg af hverju hann gerir það, mér þykir það dálítið miður. En, eins og ég segi, óska honum enn og aftur velfarnaðar í starfi fyrir sinn flokk.“

Þakkar Jóni, svo langt sem það nær

Jón segir á einum stað í pistli sínum að Björt væri vart á þeim stað sem hún er núna, ráðherra á sæmilegum launum, ef ekki væri fyrir það sem hann hefur gert. Björt gefur ekkert út á það.

„Ég þakka honum ánægjuleg samskipti. Þau hafa reyndar ekki verið mikil í gegnum Bjarta framtíð, en það sem ég hef átt í samskiptum við hann hefur hingað til verð heldur gott. Og ég þakka fyrir það, svo langt sem það nær.“

Björt vill heldur ekki gera mikið úr því að hörð ádeila Jóns á Bjarta framtíð sé þungt högg fyrir flokkinn.

„Nei, mér finnst þessi ummæli dæma sig svolítið sjálf. Og Jón verður bara að taka ábyrgð á eigin orðum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×